Enski boltinn

Klopp biður stuðningsmenn Liverpool afsökunar

Arnar Geir Halldórsson skrifar
Jürgen Klopp hefur náð stórkostlegum árangri hjá Liverpool en yfirstandandi leiktíð hefur ekki gengið vel.
Jürgen Klopp hefur náð stórkostlegum árangri hjá Liverpool en yfirstandandi leiktíð hefur ekki gengið vel. Getty/James Gill

Jurgen Klopp, stjóri Liverpool, segist bera alla ábyrgð á lélegu gengi liðsins í vetur en er sannfærður um að liðið muni nýta reynsluna til góðs síðar meir.

Klopp var heiðarlegur í viðtali við SkySports í aðdraganda stórleiksins gegn Arsenal í dag þar sem hann talaði um að frammistaða liðsins á yfirstandandi leiktíð væri ekki boðleg fyrir stuðningsmenn félagsins.

„Ég finn til með fólkinu okkar sem hefur ekki fengið tímabilið sem þau óskuðu eftir. En ég vona að í stóra samhenginu munu þau gleyma þessu tímabili.“

„Mér er alveg sama hvað við gerðum í fyrra eða árin á undan. Ég ber 100% ábyrgð á þessu rugli í vetur og ég er ekki glaður með það.“

Klopp útskýrði einnig hvað honum finnst hafa farið úrskeiðis.

„Leikmönnum skortir sjálfstraust, það er augljóst. Heimsklassa leikmenn eru að skila skrýtnum frammistöðum. Það byrjaði með meiðslum og einhverjir leikmenn fóru of snemma af stað eftir meiðsli. Við höfum aldrei náð flugi á þessu tímabili,“ segir Klopp.

Liverpool situr í 8.sæti deildarinnar þegar tíu leikir eru eftir og ljóst að allt þarf að ganga upp fyrir liðið í lokaumferðunum til að ná Meistaradeildarsæti.

„Við þurfum að komast í gegnum það og mér finnst það ekkert mál. Eftir 10-15 ár verður þetta tímabil kannski ekki einn af hápunktum félagsins en vonandi getum við lært mikið af því og nýtt okkur þá reynslu á næstu leiktíð.“

„Við þurfum að berjast í gegnum þetta og það er erfitt. Ef það væri létt myndu þeir ekki borga mér svona há laun fyrir þetta starf. Þetta hefur verið ofurskrýtið tímabil. Við höfum unnið tvo af stærstu sigrum í sögu félagsins en svo tapað stigum viku síðar,“ segir Klopp.

Leikur Liverpool og Arsenal hefst klukkan 15:30 í dag og verður í beinni textalýsingu á Vísi.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×