Enski boltinn

Arteta: Sanngjörn niðurstaða

Arnar Geir Halldórsson skrifar
Arteta á hliðarlínunni í dag.
Arteta á hliðarlínunni í dag. vísir/Getty

Mikel Arteta, stjóri Arsenal, var þokkalega sáttur við stigið sem hans menn tóku með sér frá Anfield í stórleik dagsins í ensku úrvalsdeildinni.

Arsenal byrjaði leikinn miklu betur og náði tveggja marka forystu snemma leiks. Liverpool náði að minnka muninn undir lok fyrri hálfleiks og voru mun líklegri aðilinn í síðari hálfleik.

„Þetta var rosalegur leikur. Við vorum með leikinn undir okkar stjórn en fáum á okkur mjög auðvelt mark og þá breyttist leikurinn. Við byrjuðum seinni hálfleikinn vel en misstum fljótt stjórnina.  Þá varð þetta mjög hraður leikur fram og til baka. Liverpool hefði getað skorað þrjú eða fjögur og við hefðum getað skorað líka svo úrslitin eru líklega sanngjörn,“ sagði Arteta í leikslok.

Arteta var ánægður með sitt lið og segir það ekki auðvelt að spila við Liverpool á Anfield.

„Ég hef ekki séð neitt aðkomulið stjórna leik hérna á þessari leiktíð. Þeir vinna öll stóru liðin hér. Þeir spiluðu við Real Madrid og hefðu getað verið komnir fjórum mörkum yfir eftir 20 mínútur. Þeir munu alltaf fá sín augnablik og þú verður að takast á við það. Við gerðum það og markvörðurinn okkar spilaði stóran þátt í því.“

En hvað þýða úrslitin fyrir titilbaráttuna hjá Arsenal að mati Arteta?

„Við höldum áfram og ég reyni að fá mitt lið til að spila eins og við gerðum fyrsta hálftímann.“


Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×