Rahm hafði betur gegn Brooks Koepka á lokadegi Masters og tryggði sér sigur á mótinu og þar með græna jakkann sem og efsta sæti heimslistans.
Vegna veðurs hægðist verulega á mótinu framan af en lokadagurinn var sannkallaður maraþondagur þar sem kylfingar þurftu sumir hverjir að klára þriðja hring sinn áður en haldið var í fjórða og síðasta hring mótsins.
Hinn 28 ára gamli Rahm endaði mótið á 12 undir pari og tryggði sér þar með sinn annan sigur á risamóti í golfi.
„Okkur kylfingum dreymir öllum um augnablik sem þessi. Maður reynir að sjá þau fyrir sér og hvernig það verður þegar þau raungerast,“ sagði Rahm að móti loknu.
„Bjóst aldrei við að ég myndi gráta þegar ég ynni golfmót en ég var virkilega nálægt því á 18. holunni. Mikið af því er sökum þess hvað þetta þýðir fyrir mig og golf á Spáni. Þetta er 10. risamótið sem Spánn vinnur, er fjórði kylfingurinn til að vinna Masters og minn annar risatitill. Þetta er frekar magnað.“
„Saga leiksins er stór ástæða þess að ég spila og Seve spilar þar stórt hlutverk. Ef það væri ekki fyrir Ryder-bikarinn árið 1997, ég og faðir minn tölum reglulega um það, þá veit ég ekki hvar ég eða við sem fjölskylda værum. Að ná að klára dæmið, sléttum 40 árum frá því að hann vann og það á Páskasunnudegi þýðir rosalega mikið fyrir mig,“ sagi Rahm að endingu.