Fótbolti

„Ég var eins og lítill krakki inni í klefa í dag"

Jón Már Ferro skrifar
Matthías Vilhjálmsson gekk til liðs við Víkinga í vetur.
Matthías Vilhjálmsson gekk til liðs við Víkinga í vetur. Vísir/Hulda Margrét

„Þetta var vinnusigur en um leið og við misstum smá einbeitingu sáum við að Stjarnan er gott lið og gátu refsað okkur. Fyrst og fremst ógeðslega sáttur með liðs frammistöðuna og að halda hreinu,“ sagði Matthías Vilhjálmsson, miðjumaður Víkinga, eftir sigur á móti Stjörnunni á Samsungvellinum í kvöld. Leikið var í fyrstu umferð Bestu deildar karla. 

Víkingur var betri aðilinn heillt yfir en Stjarnan átti þó sína spretti. Því var Matthías sammála. 

„Já mér fannst það svona 60/40 en hefðum getað klárað leikinn aðeins fyrr en um leið og við skorum annað markið þá var þetta nokkuð þægilegt.“

Matthías var mjög spenntur fyrir leikinn. 

„Ég var eins og lítill krakki inni í klefa í dag, vel stressaður. Það var geggjað að finna fyrir því og mér fannst ég vinna mig vel inn í leikinn.“

Matthías spilaði við hlið Pablo Punyed á miðjunni. Saman mynduðu þeir frábært par, bæði sóknarlega og varnarlega.

„Ég er búinn að spila mjög mikið þarna í allan vetur og það hefur gengið vel. Við erum með frábæran hóp og vonandi spilar Víkingur jafn marga leiki og í fyrra. Þá þurfum við á öllum að halda.“

Seint í leiknum féll Víkingur aftar á völlinn og þétti liðið allt frá fremsta til aftasta manns. Það gerði Stjörnunni erfitt fyrir.

„Það var kannski ekki planið en við töluðum um að ef við værum með forystuna og þyrftum að 'grinda' úrslitin þá er það eina sem skiptir máli. Sérstaklega svona í fyrstu umferð. Framistaðan er mjög góð þegar þú kemur á svona útivöll í fyrstu umferð. Þannig við erum mjög sáttir og svo bætum við kannski aðeins meiri sóknarbolta þegar líður á.“


Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×