Fótbolti

Hemmi Hreiðars: „Við erum hundfúlir“

Stefán Snær Ágústsson skrifar
Hermann Hreiðarsson, þjálfari ÍBV, alltaf líflegur.
Hermann Hreiðarsson, þjálfari ÍBV, alltaf líflegur. Vísir/Hulda Margrét

Hermann Hreiðarsson var svekktur eftir að lærisveinar hans í ÍBV töpuðu gegn Val í fyrstu umferð Bestu deildar karla í knattspyrnu á Hlíðarenda í kvöld. ÍBV var betra liðið í fyrri hálfleik en náði ekki að halda út gegn sterku liði Vals sem tók stigin þrjú í endurkomusigri, 2-1 lokatölur.

„Við erum hundfúlir. [Við vorum með] kraft í fyrri hálfleik sérstaklega, fengum dauðafæri þannig það var svekkjandi að vera ekki kominn með stærri forystu.“

ÍBV átti fjölmörg góð færi í fyrri hálfleik og var betra liðið, hvað fannst þjálfaranum lið hans gera rétt til að byrja með?

„Við vorum frábærir í pressu og vinnslu, færslan var góð í heildina, vorum að klukka þá vel og vorum að koma okkur í algjöra dauða, dauða, DAUÐA færi. Það er svekkjandi að hafa ekki nýtt það betur og verið með stærri forystu í hálfleik.“

Seinni hálfleikur var allt annar leikur og lágu gestirnir frá Vestmannaeyjum í vörn, en hvað fór úrskeiðis?

„Það var ekki sama færsla. Við vorum full passífir og duttum í vörn. Gæðin í liði Valsmanna eru þannig að ef við leyfum þeim að hafa tíma á boltann þá er okkur bara refsað. Við vitum það alveg sjálfir hérna inni [í klefa] að við vorum ekki alveg nóg og sprækir í seinni hálfleik.“

Frammistaða gestanna var þó ágæt, sérstaklega í fyrri hálfleik og er Hemmi bjartsýnn fyrir komandi tímabili.

„Já eins og ég segi ef við gerum þetta allir saman og gerum þetta vel þá er erfitt að eiga við okkur. Við stuðuðum þá og vorum geggjaðir í fyrri hálfleik, það er ótrúlegur krafti í þessu [liði].“




Fleiri fréttir

Sjá meira


×