Skoðun

Falskur tónn sleginn í Ár­borg

Tómas Ellert Tómasson skrifar

Fyrir ári síðan eða í lok sl. kjörtímabils var samþykkt á bæjarstjórnarfundi að ganga til samstarfs við KPMG um árangurstjórnun í fjármálum sveitarfélagsins. Bæjarfulltrúar Sjálfstæðisflokksins kusu gegn tillögunni og óskuðu eftir frestun málsins. Nú kveður við annan tón, sem betur fer.

Sveitarfélagið Árborg hefur vaxið mikið á undanförnum árum og stefnir í áframhaldandi vöxt vegna eftirspurnar frá nýjum íbúum og áforma landeigenda um uppbyggingu.

Miklum vexti fylgja ýmsar áskoranir fyrir sveitarfélagið í fjármálum. Víðtæk uppbygging á nauðsynlegum fjárfrekum innviðum og margvísleg þjónusta og vaxandi umsvif er allt hluti af þeim áskorunum sem takast þarf á við stjórn fjármála hjá sveitarfélaginu.

Þáverandi og núverandi efnahagsástand með mikilli og vaxandi verðbólgu gerir enn flóknari þá áskorun að stýra fjármálum sveitarfélags á borð við Árborg með sem farsælustum hætti. Af þeim sökum gékk þáverandi bæjarstjórnarmeirihluti Svf. Árborgar til samstarfs við KPMG um árangurstjórnun í fjármálum sveitarfélagsins.

Í stað þess að ráðast strax í þá vinnu sem að búið var að samþykkja í bæjarstjórn að þá var fyrsta verk nýs bæjarstjórnarmeirihluta Sjálfstæðisflokksins að hækka laun formanns bæjarráðs um 210%, ofan á föst bæjarfulltrúalaun og þóknanir fyrir formennsku í fastanefnd og nefndum byggðasamlaganna. Laun og þóknanir sem skila formanni bæjarráðs yfir einni og hálfri milljón króna á mánuði eða 18mkr. á ári.

Vonandi fá íbúar að sjá á íbúafundi á morgun að ein sparnaðartillagan feli í sér að formaður bæjarráðs dragi til baka sjálftökuna og endurgreiði íbúum sveitarfélagsins oftökuna. Annað er að slá falskan tón í ráðdeildinni.

Höfundur er fyrrverandi bæjarfulltrúi í Svf. Árborg.




Skoðun

Skoðun

Þorpið

Alina Vilhjálmsdóttir skrifar

Sjá meira


×