Ísland hafði þegar náð að vinna bæði Svíþjóð og Danmörku, sem höfðu bæði unnið Úkraínu, og því var ljóst strax á sunnudaginn að vegna innbyrðis úrslita gæti ekkert lið náð efsta sætinu af íslensku stelpunum.
Íslenska liðið komst í 1-0 gegn Úkraínu í dag með marki frá Blikastelpunnar Írenu Héðinsdóttur Gonzalez en Úkraína jafnaði metin rétt fyrir hálfleik og komst svo yfir á 57. mínútu, með mörkum frá Yelyzaveta Molodiuk.
Stjörnukonan Snædís María Jörundsdóttir, annar tvíburanna sem fjallað var um á Vísi í morgun, náði hins vegar að jafna metin fyrir Ísland á 60. mínútu og þar við sat.
Ísland endaði því með sjö stig á toppi riðilsins og varð önnur þjóðin til að tryggja sig inn á EM á eftir gestgjöfunum í belgíska landsliðinu. Evrópumótið fer fram dagana 18.-30. júlí en aðeins átta lið fá að keppa á mótinu. Ísland var síðast með árið 2009.
Fyrr í dag vann svo U16-landslið kvenna 5-2 sigur gegn Tékklandi á æfingamóti í Wales. Arnfríður Auður Arnarsdóttir (2 mörk), Líf Joostdóttir van Bemmel, Ragnheiður Þórunn Jónsdóttir og Kolfinna Eik Einarsdóttir skoruðu mörk Íslands.