Tískutal er fastur liður á Vísi þar sem rætt er við ólíka einstaklinga um þeirra persónulega stíl og hvernig tíska nýtist þeim í daglegu lífi. Klæðaburður er sannarlega fjölbreytt listform en við fáum að skyggnast inn í ólíka fataskápa og fræðast nánar um það merkilega tjáningarform sem tíska er fyrir hverjum og einum viðmælanda.

Hvað finnst þér skemmtilegast við tískuna?
Hvað þú getur gert mikið með henni. Það eru svo margar leiðir til að sýna persónuleika sinn og hver þú ert sem manneskja. Svo líka hvað tískan er rosalega fjölbreytt eftir hverjum og einum.

Hver er uppáhalds flíkin þín og af hverju?
Akkúrat núna myndi ég segja rauða corset-ið mitt. Ég hef rosalega gaman að over the top hlutum sem ég get púslað með öðrum flíkum.
Eyðirðu miklum tíma í að velja föt hverju sinni?
Nei, ekki svo miklum. Ég hef oftast fyrir fram gefnar hugmyndir um það hvernig ég vil púsla outfit-unum mínum saman. Oft mála ég mig fyrst og út frá því vel ég fötin eða fæ hugmynd um hvernig ég vil klæða mig.

Hvernig myndirðu lýsa stílnum þínum?
Ég myndi segja að hann sé mjög blandaður. Ég flakka oft á milli varðandi það hvernig ég vil bera mig og það breytist rosalega oft hvert ég sæki innblásturinn minn. Ég myndi segja að stílinn væri allavega frekar genderfluid.

Hefur stíllinn þinn breyst mikið í gegnum tíðina og hvernig þá?
Hann hefur breyst alveg rosalega í gegnum tíðina og með tímanum. Ég hef oft reynt að vera ekki „of gay“ þegar það kemur að klæðnaðinum mínum, því ég vildi ekki vera dæmdur af öðrum.
Með tímanum hef ég svo prófað mig meira áfram og núna er minn persónulegi stíll meira mín fantasía.
Hvaðan sækirðu innblástur í tískunni?
Það fer rosalega eftir hverju ég er að leita að. Drag, tískusýningar, thrift eða eitthvað sem ég sé á samfélagsmiðlum.

Ertu með einhver boð og bönn þegar það kemur að klæðaburði?
Já, ég er rosalega ákveðinn með það hverju ég klæðist. Persónulega myndi ég ekki nota öll efni og klæðist ekki þeim sniðum sem henta mér ekki.
Ég er ekki mikill aðdáandi af því að jogging buxur séu taldar sem tíska en í lok dags máttu auðvitað gera það sem þú vilt.

Hver er eftirminnilegasta flík sem þú hefur klæðst og af hverju?
Glæru hælaskórnir mínir.
Þeir voru fyrstu hælaskór sem ég keypti og mig hafði dreymt svo lengi um að kaupa þá. Ekki rosalega hentugir fyrir allt en skemmtilegir að eiga.

Býrðu yfir einhverju góðu ráði þegar það kemur að tísku?
Gerðu það sem þú vilt gera, það eru ekki allir að dæma eins og við höldum svo oft.
Það sem er skemmtilegast við tísku er að við erum ekki öll eins, við erum með okkar eigin rödd og ráðum hvernig við setjum hluti saman.
Það breytir því ekki hvort það sé over the top eða áberandi, en það er einmitt það sem gerir tísku að tísku í mínum augum.