Tólf lið hafa nú þegar tryggt sér sæti í úrslitakeppninni, en fyrir átta önnur er enn von. Sportrásir Stöðvar 2 verða að sjálfsögðu með puttann á púslinum og verða allir leikirnir í umspilinu sýndir í beinni útsendingu.
Umspilið fer þannig fram að liðin sem enduðu í sjöunda og áttunda sæti hvorrar deildar fyrir sig mætast í undanúrslitum og í hinni undanúrslitaviðureigninni mætast liðin í níunda og tíunda sæti. Sigurliðið úr viðureigninni milli sjöunda og áttunda sætis fer beint í úrslitakeppnina, en tapliðið mætir sigurliðinu úr viðureigninni milli níunda og tíunda sætis.
Það er því til mikils að vinna í kvöld þegar liðin sem enduðu í sjöunda og áttunda sæti hvorrar deildar fyrir sig mætast í hreinum úrslitaleikjum um sæti í úrslitakeppninni.
8 teams, 1 goal. WIN TO GET IN.
— NBA (@NBA) April 11, 2023
The #ATTPlayIn tips off TONIGHT on TNT.
#8 Hawks at #7 Heat
👀: 7:30pm/et on TNT
#8 Timberwolves at #7 Lakers
👀: 10pm/et on TNT pic.twitter.com/KXJJs2QUtz
Miami Heat, sem endaði í sjöunda sæti Austurdeildarinnar, tekur á móti Atlanta Hawks, sem endaði í áttunda sæti, klukkan 23.30 í beinni útsendingu á Stöð 2 Sport 2.
Klukkan 02.00 færum við okkur svo yfir á vesturströndina þar sem Los Angeles Lakers, sem endaði í sjöunda sæti Vesturdeildarinnar, tekur á móti Minnesota Timberwolves, sem endaði í áttunda sæti.
Eins og áður segir fá tapliðin úr viðureignum kvöldsins þó annað líf og mæta sigurliðunum úr viðureignum morgundagsins. Þar mætast Toronto Raptors og Chicago Bulls í umspili Austurdeildarinnar og New Orleans Pelicans og Oklahoma City Thunder í umspili Vesturdeildarinnar.