Enski boltinn

Söluferlið lengist og Glazer-fjölskyldan freistar þess að fá meira

Valur Páll Eiríksson skrifar
Avram Glazer fer fyrir fjölskyldunni, en hann á einnig Tampa Bay Buccaneers í NFL-deildinni.
Avram Glazer fer fyrir fjölskyldunni, en hann á einnig Tampa Bay Buccaneers í NFL-deildinni. Getty

Hin bandaríska Glazer-fjölskylda, sem á enska úrvalsdeildarfélagið Manchester United, hefur opnað fyrir þriðju umferð tilboða í félagið. Eigendurnir flýta sér hægt, freista þess að fá hærri boð í félagið og alls er óvíst að það takist að selja félagið fyrir lok yfirstandandi leiktíðar.

Manchester United var sett á sölu í nóvember síðastliðnum. Síðan hafa farið fram tvær umferðir tilboða í félagið þar sem Katarinn Sjeik Jassim og Bretinn Sir James Ratcliffe lögðu fram tilboð, og endurbætt tilboð í seinni umferðinni. Finninn Thomas Zilliacus er einnig sagður hafa boðið í félagið.

Búist var við ákvörðun frá Glazer-fjölskyldunni eftir aðra umferðina en nú hefur verið opnað á þriðju umferð boða, þar sem eigendurnir freista þess að fá hærri tilboð. Fjölskyldan hefur átt meirihluta í félaginu frá árinu 2005 þegar hún keypti United á 790 milljónir punda.

Samkvæmt breskum fjölmiðlum vonast hún nú eftir að selja félagið fyrir fimm til sex milljarða punda. Verðmiðinn er hár og nú ljóst að ferlið mun lengjast enn frekar, líklega fram á sumar.

Katarinn Jassim vill kaupa 100 prósent eignarhlut í félaginu en Ratcliffe sækist eftir um 69 prósenta hlut með sínu tilboði.

Enn er ekki útilokað að Glazer-fjölskyldan ákveði að selja ekki félagið en fyrir liggur þó töluverður kostnaður af því að endurbæta heimavöll félagsins, Old Trafford. Eins og sakir standa getur Old Trafford ekki verið hluti af boði Bretlands og Írlands til að halda EM 2028, þar sem hann uppfyllir ekki kröfur.

Etihad-völlurinn, heimavöllur Manchester City, og fyrirhugaður núr heimavöllur Everton, sem er í byggingu, verði líklega þeir tveir vellir í norðvestur Englandi sem lagt verði fram að spila á.

Talið er að kostnaður við enduruppbyggingu Old Trafford geti numið allt að einum milljarði punda.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×