Enski boltinn

Ekki talið að Ras­h­ford verði frá keppni út tíma­bilið

Runólfur Trausti Þórhallsson skrifar
Fáir hafa spilað betur en þessi á árinu 2023.
Fáir hafa spilað betur en þessi á árinu 2023. AP Photo/Jon Super

Marcus Rashford missir af leik Manchester United og Sevilla í 8-liða úrslitum Evrópudeildarinnar í knattspyrnu annað kvöld. Hann verður þó ekki frá út tímabilið eins og svartsýnasta fólk taldi eftir að hann haltraði af velli í síðasta leik Man United.

Man United vann 2-0 sigur á Everton í ensku úrvalsdeildinni um liðna helgi. Rashford lagði upp síðara markið en það skoraði Anthony Martial. Englendingurinn náði hins vegar ekki að klára leikinn þar sem hann virtist fá tak í nárann og haltraði af velli.

Óttast var að Rashford gæti verið frá út tímabilið en hann hefur verið einn besti leikmaður Man United á leiktíðinni og einn besti leikmaður Evrópu það sem af er ári. Alls hefur hann skorað 28 mörk og gefið 10 stoðsendingar í 47 leikjum á leiktíðinni.

Man United staðfesti í dag að framherjinn hraðskreiði verði ekki með þegar Sevilla mætir á Old Trafford í fyrri leik liðanna í 8-liða úrslitum Evrópudeildarinnar. Félagið sagði þó í yfirlýsingu sinni að talið væri að Rashford myndi ná lokakaflanum á tímabilinu.

Eru það jákvæðar fréttir fyrir stuðningsfólk Man United en félagið er enn í harðri baráttu um Meistaradeildarsæti sem og það á enn mögulega á að vinna ensku bikarkeppnina og Evrópudeildina.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×