Innlent

Níu létust í um­ferðinni í fyrra og 195 slösuðust al­var­lega

Hólmfríður Gísladóttir skrifar
Gatnamót Miklabrautar og Kringlumýrarbrautar.
Gatnamót Miklabrautar og Kringlumýrarbrautar. Vísir/Vilhelm

Níu létust í umferðinni í fyrra í jafnmörgum slysum, þar af átta karlar og ein kona. Fólkið var á aldrinum 19 til 74 ára. Fjórir voru í bifreið, einn á rafhlaupahjóli og fjórir gangandi. Þá létust fimm innan þéttbýlis en fjórir utan þéttbýlis.

Þetta er í fyrsta sinn frá árinu 1973 sem fleiri látast úr hópi gangandi og hjólandi en úr hópi ökumanna og farþega og í fyrsta sinn frá árinu 1992 sem fleiri látast í þéttbýli en utan þéttbýlis.

Þetta er meðal þess sem kemur fram í skýrslu Samgöngustofu um slys í umferðinni árið 2022.

Af látnu voru tveir erlendir ferðamenn.

Samkvæmt skýrslunni slösuðust 195 alvarlega í umferðinni í fyrra, 123 karlar og 72 konur. Tuttugu börn slösuðust alvarlega á árinu og 97 slösuðust lítillega.

Af þeim sem slösuðust alvarlega var 81 á reiðhjóli eða rafhlaupahjóli en 58 í fólksbíl. Alls slösuðust 176 á rafmagnshlaupahjóli, þar af 48 alvarlega.

Í skýrslunni segir að flest slys og óhöpp verði á gatnamótum Miklubrautar og Grensásvegar og næst flest á gatnamótum Miklubrautar og Kringlumýrarbrautar annars vegar og á hringtorginu í Hafnarfirði þar sem mætast Flatahraun, Fjarðarhraun og Bæjarhraun hins vegar.

Þegar kemur að slysum með meiðslum verða þau flest á gatnamótum Miklubrautar og Kringlumýrarbrautar og á gatnamótum Reykjanesbrautar og Bústaðavegar.

„Íbúar Ísafjarðar og Grindavíkur eru þeir sem slasast mest í umferðinni þegar skoðaður er fjöldi slasaðra sem búa í stærstu þéttbýlisstöðunum m.v. íbúafjölda á viðkomandi stað. Íbúar Borgarness, Akraness, Akyreyrar og Selfoss standa sig talsvert betur árið 2022 heldur en árin á undan. Íbúar Borgarness standa sig best allra þetta árið en árið 2021 stóðu þeir sig verst allra,“ segir í skýrslunni.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×