Viðskipti innlent

Lands­liðs­kona ráðin fræðslu- og þróunar­stjóri

Máni Snær Þorláksson skrifar
Elísa Viðarsdóttir hefur verið ráðin sem fræðslu- og þróunarstjóri hjá Feel Iceland.
Elísa Viðarsdóttir hefur verið ráðin sem fræðslu- og þróunarstjóri hjá Feel Iceland. Aðsend

Elísa Viðarsdóttir, landsliðskona í knattspyrnu, hefur verið ráðin sem fræðslu- og þróunarstjóri hjá íslenska nýsköpunarfyrirtækinu Feel Iceland. Fyrirtækið sérhæfir sig í þróun á fæðubótaefnum sem innihalda kollagen prótein úr íslensku fiskroði.

Elísa er með BSc gráðu í næringarfræði og MSc gráðu í næringar- og matvælafræði frá Háskóla Íslands. Þá hefur hún að sjálfsögðu mikla reynslu úr íþróttum. Hún er fyrirliði Vals, hefur spilað erlendis og svo á hún 52 leiki með íslenska landsliðinu.

Hún er fædd og uppalin í Vestmannaeyjum og byrjaði ung að vinna í fiskvinnslu þar. Því þekkir hún vel meðhöndlun á sjávarfangi.

„Það er mikill fengur að fá Elísu til liðs við okkur en hún hefur mikla reynslu og brennur fyrir að hjálpa fólki að ná tökum á næringu sinni með heilbrigðum hætti,“ er haft eftir Hrönn Margréti Magnúsdóttur, framkvæmdastjóra og eins af stofnendum Feel Iceland.

Hrönn segir að ráðning Elísu sé liður í frekari sókn félagsins á erlenda markaði. Hún muni koma sterk inn í frekari vöruþróun fyrirtækisins.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×