Innlent

Á­kvörðun um að gefa ekki út kæru vegna dauða á­rásar­mannsins kærð

Hólmfríður Gísladóttir skrifar
Árásarmaðurinn myrti konu og skaut eiginmann hennar í kviðinn.
Árásarmaðurinn myrti konu og skaut eiginmann hennar í kviðinn. Vísir

Ákvörðun héraðssaksóknara um að gefa ekki út ákæru vegna dauða mannsins sem varð konu að bana á Blönduósi hefur verið kærð til ríkissaksóknara. Aðstandendur mannsins kærðu ákvörðunina.

Þetta staðfestir Kolbrún Benediktsdóttir varahéraðssaksóknari í samtali við fréttastofu. 

Héraðssaksóknari komst að þeirri niðurstöðu að sonur konunnar og eiginmaður hennar, sem var skotinn í kviðinn, hefðu ekki farið út fyrir takmörk sín til leyfilegrar neyðarvarnar. Málið hefði ekki verið líklegt til sakfellis.

Atvik voru með þeim hætti að þann 21. ágúst fór maður vopnaður afsagaðri haglabyssu inn um ólæstar dyr á heimili fjölskyldu á Blönduósi. Hann var með sjö haglaskot og veiðihníf meðferðis.

Þegar árásarmaðurinn sá að gestir voru á heimilinu fór hann út úr húsinu og húsráðandi á eftir honum. Utandyra kom til orðaskipta og átaka sem enduðu með því að árásarmaðurinn skaut húsráðanda í kvið og særði hann alvarlega.

Að því loknu fór árásarmaðurinn inn í húsið og skaut eiginkonu hans í höfuðið, þar sem hún stóð inni í stofu. Hún lést samstundis.

Húsráðandi, eiginmaður látnu, náði í kjölfarið tökum á árásarmanninum og sonur þeirra hjóna kom til aðstoðar og náði byssunni af manninum. Til átaka kom þar sem hnífur árásarmannsins kom við sögu en átökin enduðu þannig að hann lést.

Réttarkrufning hefur leitt í ljós að dánarorsök árásarmannsins var köfnun vegna þrýstings á háls og brjóst.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×