Íslenski boltinn

„Ég hef spilað á mun verri völlum í efstu deild“

Valur Páll Eiríksson skrifar
Miðvöllur, hvar FH mun mæta Stjörnunni á morgun.
Miðvöllur, hvar FH mun mæta Stjörnunni á morgun. Vísir/Einar

FH mætir Stjörnunni á morgun í Bestu deild karla í fótbolta á Miðvelli, frjálsíþróttavelli félagsins, sem stendur fyrir ofan Kaplakrika á FH-svæðinu. FH-ingar haffa unnið hörðum höndum við að gera völlinn kláran fyrir leikinn.

Davíð Þór Viðarsson, yfirmaður knattspyrnumála hjá FH, skoðaði völlinn með fréttamanni í dag og við fengum innsýn í vinnuna sem liggur að baki fyrir morgundaginn.

Hann hefur ekki áhyggjur af meiðslahættu leikmanna, frekar en á öðrum völlum. Völlurinn sé sléttur og hann hafi sjálfur spilað á verri völlum í deildinni í gegnum tíðina.

Klippa: Innlit á Miðvöll

Aðspurður um meiðslahættu segir hann:

„Nei, ekkert frekar en maður hefur venjulega áhyggjur af því að einhver meiðist. Þetta er nokkuð sléttur völlur og ég hef spilað á mun verri völlum en þetta í fyrstu umferðum í efstu deild,“

Davíð Þór hrósar sjálfboðaliðum sem hafa aðstoðað FH-inga við að koma vellinum í almennilegt stand í hástert.

Þeir hafa sett upp rúmlega 300 manna stúku við völlinn með sætum sem hafa verið færð úr stúkunni við Kaplakrika yfir hæðina. Þá þurfti að fara í ákveðnar aðgerðir vegna hola sem hafa gert vart við sig eftir köst sleggjukastara út á grasið en Davíð segir vel hafa verið fyllt í og menn þurfi engar áhyggjur að hafa fyrir morgundaginn.

Innslag þar sem litið er á völlinn og rætt við Davíð Þór má sjá í heild sinni í spilaranum að ofan.

FH og Stjarnan mætast klukkan 16:00 á Miðvelli á morgun. Leikurinn verður í beinni útsendingu á Stöð 2 Sport.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×