Innlent

„Á endanum hafði Arnar minn ekki kraftinn til að standa af sér þennan storm“

Máni Snær Þorláksson skrifar
Samúel Ívar Árnason, bróðir Stefáns Arnars Gunnarssonar, hefur að undanförnu reynt að komast til botns í því sem átti sér stað áður en bróðir hans hvarf.
Samúel Ívar Árnason, bróðir Stefáns Arnars Gunnarssonar, hefur að undanförnu reynt að komast til botns í því sem átti sér stað áður en bróðir hans hvarf. Vísir/Vilhelm/Lögreglan

Samúel Ívar Árnason, bróðir Stefáns Arnars Gunnarssonar, hefur á undanförnum vikum reynt að fá svör við því hvers vegna saga bróður hans endaði með þeim hætti sem hún gerði. Arnar fannst látinn fyrir tveimur vikum en þá hafði hans verið leitað í um mánuð.

„Það fer að renna upp fyrir okkur að hann kemur aldrei aftur í heimsókn, hringir ekki framar, sendir ekki fleiri skilaboð. Engar skýjaborgir sem höfðu fundið sér fótfestu í huga okkar munu rætast. Það verða engir endurfundir, þetta er endanlegt. Eftir standa fjölskylda og vinir í sorg og söknuði,“ segir Samúel í upphafi ítarlegrar færslu á Facebook.

Í færslunni fer Samúel, sem er starfandi þjálfari meistaraflokks kvenna hjá HK, yfir það sem átti sér stað í aðdraganda andláts bróðurs síns. Samúel segir í samtali við fréttastofu að markmiðið með færslunni sé að fara yfir það sem átti sér stað.

„Ég er ekki að reyna að ráðast á einhvern einn persónulega, ég er að reyna að skýra frá málavöxtum og hreinsa nafnið hans. Það er í rauninni það sem mér gengur til,“ segir hann.

„Firringin og frekjan nær alla leið“

Samúel hefur starfað við þjálfun og kennslu í Noregi og á Íslandi í rúma þrjá áratugi. Hann segir að með árunum hafi tíðarandinn breyst og að það komi sífellt meira í ljós hve mikil áhrif foreldrar hafa á störf íþróttafélaga. Jákvæða hlið þess endurspeglist til dæmis í fjáröflunum, sjálfboðaliðastarfi og öllu utanumhaldi árganga. Það sé talsvert betra en þegar hann var yngri.

Neikvæða hliðin að sögn Samúels er hins vegar sú að foreldrar hafa á tíðum sterkar skoðanir á því hvar barnið sitt stendur gagnvart öðrum iðkendum í sama flokki.

„Sum hver bjóða sig fram til starfa fyrir félagið, meðal annars í barna og unglingaráðum og stjórnum deilda eða félaga. Því miður virðist hvatinn þar að baki oft vera að liðka fyrir framgangi eigin afkvæmis en ekki til að stuðla að faglegu og öflugu starfi félagsins í heild.“

Samúel segir viðhorfið að leggja harðar að sér til að bæta stöðu sína vera á undanhaldi. „Margir foreldrar grípa frekar til þess ráðs að baktala þjálfara og vinna gegn honum leynt og/eða ljóst,“ segir hann og kemur með dæmi um hvernig hann hefur sjálfur lent í þessu.

„Þannig frétti ég fyrr í vetur að foreldrar einhverra leikmanna í mínu liði hafi reynt að safna undirskriftum til að fá mig rekinn á haustmánuðum. Ekki vegna þess að ég hefði gerst brotlegur í starfi, heldur eingöngu vegna þess að afkvæmi þeirra voru ekki að fá tækifærin sem þeim þótti þau eiga rétt á.“

Þá bendir Samúel á að um er að ræða meistaraflokkslið í Olísdeildinni. „Firringin og frekjan nær alla leið, upp og niður alla aldursflokkana,“ segir hann.

Segir áreitið á bróður sinn hafa verið nánast stanslaust

Samúel segir þó að bróðir sinn hafi gengið í gegnum „talsvert grimmari öldusjó.“ Hann segir fólk úr hópi foreldra flokks sem Arnar þjálfaði hafa unnið markvisst að því að losa sig við hann.

„Ástæða óánægjuradda í upphafi? C er ekki að fá sömu tækifæri og G, eða Y er í B-liðinu þegar foreldrinu finnst að hann eigi að vera í A-liðinu, spilar ekki stöðuna sem hann langar til eða er ekki í nægilega stóru hlutverki að þeirra mati. Fjölmargir fundir áttu sér stað og áreitið á Arnar nánast stanslaust allt tímabilið.“

Í upphafi árs hafi verið haft samband við mann sem átti að koma inn sem aðstoðarþjálfari Arnars, meðal annars til að lægja öldurnar í flokknum. Samúel segir að um hafi verið að ræða margreyndan þjálfara sem var klár í verkefnið. Það hafi átt að hafa samband við hann fljótlega til að ganga frá samningnum en það var svo aldrei gert. 

„Það er aldrei klárað því svo virðist sem einhverjir innan félagsins séu staðráðnir í að losna við Arnar með öllum ráðum. 10.janúar er Arnar boðaður á fund þar sem ætlunarverkið mistekst. Á þeim fundi er ákveðið að leysa úr samskiptaflækjum milli hans og ákveðinna aðila í foreldrahópnum og horfa fram á veginn. Enn dregur þó barna og unglingaráð HK lappirnar með að ganga frá samningum við aðstoðarþjálfarann, hefur í raun aldrei samband við hann. Hvers vegna fæ ég ómögulega skilið því hann hefði sannarlega verið mikill fengur fyrir liðið og hópinn í heild sinni.“

Sagt upp vegna brota á siðareglum og samskiptavanda

Viku síðar, þann 17. janúar síðastliðinn, berst Íþrótta- og Ólympíusambandi Íslands (ÍSÍ) bréf. Samúel segir að þar hafi komið fram að Arnar „hafi hagað sér ósæmilega gagnvart iðkendum og brotið siðareglur félagsins. HK sé meðvitað um stöðuna en sé ekki að gera neitt í málinu.“

Samúel fullyrðir að innihald bréfsins hafi verið byggt á sögusögnum og dylgjum. Það standist „nákvæmlega enga skoðun þegar kafað er í málið.“

HK fær að sögn Samúels tilkynningu frá ÍSÍ um þetta bréf. Félagið hafi átt í einhverjum samskiptum við samskiptaráðgjafa ÍSÍ sem fer með málið fyrir hönd sambandsins. Ekkert úr þessum samskiptum hafi þó verið notað sem ástæða uppsagnar sem átti sér stað 24. janúar síðastliðinn.

„Þar eru ástæður uppsagnar sagðar „brot á siðareglum“ sem felst í að Arnar tók poka með sokkum og leyfði iðkendum að eiga, og „samskiptavandi milli Arnars og foreldra í hópnum.“

Uppsögnin og allt ferlið þar í kring er svo efni í farsa sem ég gæti talað um í marga klukkutíma.“

Hvarf daginn sem fundurinn var

Samúel segir meðhöndlun ÍSÍ á ásökunum á hendur bróður síns vera „fyrir neðan allar hellur.“ Nauðsynlegt sé fyrir sambandið að fara vel yfir þetta mál til að tryggja að eitthvað álíka gerist aldrei aftur.

„Sambandið, í þessu tilfelli samskiptaráðgjafi ÍSÍ sem fær málið í hendurnar, rannsakar hvorki ásakanirnar markvisst eða af fagmennsku. Sú einfalda og auðvelda leið er valin að senda Arnari póst um að sambandinu hafi „borist erindi“ en málinu sé lokið vegna þess að „hann er ekki lengur starfandi hjá félaginu“. Arnar vissi ekkert um þetta mál fyrr en hann fær þennan póst frá samskiptaráðgjafa ÍSÍ, var ekki tilkynnt hverjar ásakanirnar voru og var því aldrei beðinn um að gefa sínar skýringar á þeim.“

Hann segir innihald bréfsins hafa verið bróður sínum hulið allt þar til hann fer á fund með þessum aðila, daginn sem hann hverfur.

„Þið megið reyna að setja ykkur í þau spor að fá slíkt erindi til ykkar, fá engar upplýsingar um hvað verið er að saka ykkur um og velta fyrir ykkur hvernig þið mynduð bregðast við. Svona vinnubrögð eru óásættanleg með öllu. Ef þjálfari gerist sekur um einhver brot gagnvart iðkendum, líkt og Arnar var sakaður um eða gefið í skyn að hann hafi gert í þessu bréfi, er fráleitt að viðkomandi sleppi við frekari rannsókn vegna þess eins að hann sé hættur störfum hjá félaginu þar sem meint brot áttu sér stað.“

Að mati Samúels ber sambandinu skylda til að kæra viðkomandi til lögreglu eða í það minnsta að sjá til þess að málið sé rannsakað að fullu ef rökstuddur grunur er sekt.

„Reynist viðkomandi sekur á hann ekkert að koma aftur að störfum með börnum og ungmennum. Reynist hann saklaus verða þau sem bera ábyrgð á rógburði að svara fyrir sínar gjörðir. Það á aldrei að vera í boði að bera slíkar ásakanir á borð ef þær eru ekki byggðar á staðreyndum og/eða atburðum, fólk verður að þurfa að standa fyrir máli sínu. Orð bera ábyrgð og það er löngu tímabært að við áttum okkur á því.“

Líka sent bréf til skólans

Samúel segir að einnig hafi verið sent bréf, samhljóða því sem sent var á ÍSÍ, til Kópavogsskóla þar sem Arnar starfaði sem umsjónarkennari. 

„Tíminn hefur leitt í ljós að þar er um að ræða sömu dylgjurnar og sendar voru til ÍSÍ. Engar staðreyndir, engir atburðir, ekkert sem heldur vatni þegar rýnt er í það, falskt nafn og símanúmer skrifað undir. Þetta fólk þorir nefnilega ekki að standa á bak við þessa aðför undir eigin nafni eða nöfnum. Og höfum eitt alveg á hreinu, þetta er ekkert annað en aðför að mannorði Arnars og afskaplega grimmileg sem slík.“

Málið var þó afgreitt fljótlega af Kópavogsbæ, tveimur sólarhringum eftir að bréfið barst var málinu lokið og Arnar mættur aftur til starfa sem umsjónarkennari. 

„Ekki af því að bærinn vann málið illa, heldur vegna þess að innihald bréfsins var þess eðlis að það var einfalt að afgreiða það sem þvætting. Ef einhver fótur væri fyrir þeim ásökum sem stóðu í bréfunum tveim, er algerlega ljóst í mínum huga að hann hefði ekki fengið að mæta aftur til að kenna 11 ára börnum. Að halda öðru fram er hreinlega fráleitt.“

Hafði á endanum ekki kraftinn

Samúel segir að bróðir sinn hafi ekki verið fullkominn frekar en hann sjálfur eða aðrir. Hann hafi þó nálgast þjálfun og kennslu af „einskærri fagmennsku og ekki síst umhyggju fyrir þeim sem hann var að vinna með.“

Arnar kvæntist aldrei né eignaðist börn en Samúel segir að handboltinn hafi komið í þeirra stað, íþróttin hafi verið honum allt. 

„Hann lá því vel við höggi þegar kjaftasögurnar náðu flugi og særðu hann að sama skapi dýpra en aðra sem eiga eitthvað annað sem er þeim dýrmætara. Þegar ráðist er á æru þína af slíkum krafti og offorsi getur verið erfitt að streitast á móti. Þetta smitar fljótt út frá sér og kunningjar þínir þurfa jafnvel að kanna málið áður en þeir eru tilbúnir að votta um það hver þú ert, fyrir hvað þú stendur, eða skrifa meðmælabréf fyrir þig.“

Samúel segir að þau sem þekktu Arnar tengi ekki saman hljóð og mynd í þessu máli. „Þessar ásakanir eru svo fjarri manninum sem við þekktum og var okkur svo kær,“ segir hann.

„Á endanum hafði Arnar minn ekki kraftinn til að standa af sér þennan storm, þrátt fyrir að hann hefði þéttan vinahóp á bak við sig, þar á meðal einstaklinga innan íþróttafélagsins HK. Þið sem stóðuð að baki þessum stormi megið bera skömmina að eilífu og ættuð að mínu mati að halda ykkur fjarri öllu íþrótta og tómstundastarfi héðan í frá, þið eruð ekki hæf til verksins.“

Sárin muni aldrei gróa að fullu

Undir lok færslunnar sendir Samúel skilaboð til þeirra sem sendu bréfið. Hann segir það að ekki sé vitað hvaðan bréfið kom varpa skugga á alla hina foreldrana í hópnum. Þau liggi öll undir grun „um alvarlega aðför að mannorði Arnars á meðan svo er.“

Samúel segir þessa aðför hafa ýtt bróður sínum hægt en örugglega að bjargbrúninni og að lokum fram af henni. 

„Við þessa aðila vil ég að lokum segja. Það er vegna framkomu ykkar og gjörða að farinn er frá okkur einn allra færasti þjálfari landsins, afbragðs kennari, mannvinur og yndislegur drengur. Við sem þekktum hann munum sakna hans og syrgja svo lengi sem við lifum, sárin í hjörtum okkar munu aldrei gróa að fullu.“

Færslu Samúels í heild sinni má lesa hér fyrir neðan.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×