Kári Stefánsson forstjóri Íslenskrar erfðagreiningar sagði í kvöldfréttum Ríkisútvarpsins í gær að fyrirtækið hefði til skoðunar að setja upp rannsoknarstofu til að greina 200 þúsund sýni úr íslenskum kindum og finna þannig mögulega verndandi arfgerð gegn riðuveiki. Sýni hafa hingað til verið send til greiningar í Þýskalandi. Kári sagði ráðamenn hafa komið að máli við hann í gær og beðið hann um aðstoð en riða greindist nýlega á tveimur bæjum í Miðfirði og skera þarf niður yfir 1.400 kindur.

Halla Signý Kristjánsdóttir þingmaður Framsóknarflokksins í Norðvesturkjördæmi - og fyrrverandi bóndi - fagnar mjög mögulegri aðkomu Erfðagreiningar.
„Þessi breytileiki hann erfist og því er hægt að rækta þetta úr íslenska fjárstofninum á nokkrum árum. En til þess að gera þetta hratt og vel er nauðsynlegt að ríkið komi að þessu og svona öflugt fyrirtæki eins og hjá Kára, ég fagna því bara innilega,“ segir Halla.
Hún telur að árangur gæti náðst mjög fljótt.
„Þetta er ekki flókið, bændur geta í raun tekið sýnin sjálfir og sent þetta áfram. Það tekur ekki langan tíma að finna þetta þannig að ef þetta er sett af stað, ef það væru tekin sýni úr kindum í vor þá væri komin niðurstaða jafnvel í haust. Og þá væri hægt að setja líflömb á eftir því hvernig þetta hefur fundist og taka svo hrúta og setja á sæðingarstöðina,“ segir Halla.
„En þetta er bara mjög gleðilegt að það sé hægt, í þessum vondu fréttum sem hafa verið að koma undanfarna daga. Það er þyngra en tárum taki að heyra þessar fréttir úr Húnavatnssýslunni.“
Þannig að þú bindur miklar vonir við þessar mögulegu fyrirætlanir Íslenskrar erfðagreiningar?
„Já, ég held að ef að Kári fær áhuga á þessu verkefni þá tæklar hann þetta.“