Körfubolti

Vara­maðurinn Rui hetja Lakers | Giannis meiddist á baki

Runólfur Trausti Þórhallsson skrifar
Lakers vann fyrsta leikinn gegn Memphis.
Lakers vann fyrsta leikinn gegn Memphis. Justin Ford/Getty Images

Los Angeles Lakers byrjar úrslitakeppni NBA-deildarinnar af krafti en liðið vann 16 stiga sigur á Memphis Grizzlies í gærkvöld. Varamaðurinn Rui Hachimura nýtti mínúturnar sínar heldur betur vel. Milwaukee Bucks tapaði fyrir Miami Heat eftir að Giannis Antetokounmpo þurfti að yfirgefa völlinn í fyrsta leikhluta vegna meiðsla.

Alls fóru fjórir leikir fram í úrslitakeppninni í nótt. Ásamt leikjunum nefndum hér að ofan þá vann Los Angeles Clippers góðan sigur á Phoenix Suns ásamt því að Denver Nuggets valtaði yfir Minnesota Timberwolves.

Lakers hélt til Memphis og hóf seríuna á frábærum sigri. Lakers byrjuðu af krafti og leiddu með fimm stigum eftir 1. leikhluta. Leikurinn var mjög kaflaskiptur en liðin skiptust á að taka nokkurra stiga skorpur en þegar flautað var til hálfleiks var Memphis komið sex stigum yfir.

Undir lok fyrri hálfleiks virtist Anthony Davis meiðast illa en hann sneri til baka í síðari hálfleik, sem betur fer fyrir Lakers. Það var jafnt á nærri öllum tölum í síðari hálfleik en undir lok leiks meiddist Ja Morant og svo hrundi leikur Grizzlies eins og spilaborg í blálokin. Lakers skoraði síðustu 15 stig leiksins og unnu fyrsta leik seríunnar með 16 stigum, lokatölur 112-128.

Jaren Jackson Jr. var stigahæstur í liði Memphis með 31 stig, Desmbond Bane skoraði 22 og Ja Morant 18 stig. Hjá Lakers var Hachimura stigahæstur með 29 stig ásamt því að taka 6 fráköst. Hann varð með því stigahæsti varamaður í sögu Lakers.

Þar á eftir kom Austin Reaves með 23 stig, Anthony Davis skoraði 22 stig og tók 12 fráköst á meðan LeBron James skoraði 21 stig og tók 11 fráköst.

Kevin Durant tapaði loks í treyju Phoenix Suns. Kawhi Leonard, Russell Westbrook og félagar í Clippers sáu til þess. Segja má að frábær byrjun hafi lagt grunninn að sigri Clippers.

Á meðan Suns skoruðu aðeins 18 stig í fyrsta leikhluta settu leikmenn Clippers niður 30 og komust í forskot sem Suns voru lengi að saxa niður.

Kawhi Leonard fór fyrir sínum mönnum en hann skoraði 38 stig í liði Clippers ásamt því að taka 5 fráköst og gefa 5 stoðsendingar. Ivica Zubab skoraði 12 stig og tók 15 fráköst á meðan Russell Westbrook tók 10 fráköst, skoraði 9 stig og gaf 8 stoðsendingar. Westbrook var einnig frábær varnarlega undir lok leiks.

Hjá Suns var Durant með 27 stig, 11 stoðsendingar og 9 fráköst. Devin Booker skorðai 26 stig.

Miami Heat nýtti sér meiðsli Giannis og vann Milwaukee Bucks 130-117. Giannis spilaði aðeins 11 mínútur áður en hann meiddist á baki, munar um minna og Bucks gátu ekki kreist fram sigur án hans.

Jimmy Butler skoraði 35 stig í liði Miami ásamt því að gefa 11 stoðsendingar. Bam Adebayo kom þar á eftir með 22 stig en alls skoruðu 7 leikmenn Miami 12 stig eða meira í nótt. Hjá Bucks var Khris Middleton stigahæstur með 33 stig á meðan Bobby Portis skoraði 21 stig.

Að lokum vann Denver Nuggets þægilegan 109-80 sigur á Minnesota Timberwolves. Jamal Murray var óvænt stigahæstur hjá Denver með 24 stig ásamt því að gefa 8 stoðsendingar og taka jafn mörg fráköst. Nikola Jokic skoraði 13 stig, tók 14 fráköst og gaf 6 stoðsendingar. Hjá Timberwolves var Anthony Edwards stigahæstur með 18 stig.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×