Viðskipti innlent

Master­­card hafar Ís­lands­banka fengu sjokk í morgun

Kristinn Haukur Guðnason skrifar
Villan kom upp eftir að aurarnir voru felldir niður á laugardag. Margir hafa sagt frá upplifun sinni af vænum kortastraujunum á samfélagsmiðlum.
Villan kom upp eftir að aurarnir voru felldir niður á laugardag. Margir hafa sagt frá upplifun sinni af vænum kortastraujunum á samfélagsmiðlum. vísir/kristján

Villur hafa komið upp á Mastercard greiðslukortum Íslandsbanka eftir aurarnir voru felldir niður á laugardag. Villurnar eru hins vegar að koma fram núna í morgun. Dæmi eru um að færslur séu að hundraðfaldast, en einnig eru villur í hina áttina.

Meðal þeirra sem hafa lent í villum eru Árni Helgason lögmaður. Hann skrifar á Twitter: „Gott móment á kassanum í Hagkaup í morgun að fá ekki heimild á kortinu fyrir appelsínusafa handa syninum. Skoðaði færsluyfirlitið og sá þá skýringu, kallinn var greinilega stór um helgina, straujaði milljón í Byko og 176 þús. á Bæjarins Bestu. Sé ekki eftir neinu.“

Fleiri birta færslur. Meðal annars kona sem á að hafa verslað í Krónunni fyrir 642.600 krónur samkvæmt færsluyfirliti á laugardag. Annar verslaði á asískum veitingastað fyrir 57 krónur.

Staðan verður leiðrétt sem fyrst

„Vegna breytinga sem gerðar voru hjá alþjóðlegu kortasamtökunum um helgina þar sem aukastafir íslensku krónunnar voru fjarlægðir birtist hluti þeirra færslna sem gerðar voru hjá íslenskum söluaðilum með Mastercard korti rangar núna í morgun. Leiðrétting hefur þegar verið send til Mastercard og staða hjá korthöfum verður leiðrétt sem fyrst“ segir í tilkynningu Rapyd (áður Valitor). 

„Rapyd harmar óþægindin sem þetta hefur haft í för með sér fyrir hlutaðeigandi.“

Villur í Danmörku fyrir helgi

Á föstudag voru aurarnir felldir niður i greiðslukerfum VISA og American Express. Urðu nokkrar truflanir á greiðslukortafærslum notenda VISA greiðslukorta Landsbankans, Arion banka og Indó í Danmörku eða í viðskiptum með danskar krónur. Voru dæmi um að færslur hefðu hundraðfaldast.

Samkvæmt Hjördísi Elsu Ásgeirsdóttur, markaðsstjóra Indó, sagði málið bundið við Danmörku vegna villu þar í landi en hvatti viðskiptavini til að vera vakandi fyrir villum á reikningum sínum.

Um tíma var kortum lokað og unnið hefur verið að því að leiðrétta villurnar. Landsbankinn og Arion gáfu út tilkynningar vegna málsins og að færslurnar yrðu leiðréttar.

Eins og sjá má á dæmunum að neðan lenti fólk ýmist í því að „greiða“ alltof mikið eða alltof lítið fyrir vöru eða þjónustu.


Tengdar fréttir

Aurarnir hverfa

Í fyrramálið á morgun, föstudaginn 14. apríl, verða aukastafirnir fjarlægðir úr meðhöndlun íslenskrar krónu í alþjóðlegum kerfum kortafyrirtækjanna Visa og American Express. Laugardaginn 15. apríl gerist slíkt hið sama hjá Mastercard.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×