Fótbolti

Skrá­setur frasann „Wag­atha Christi­e“ eftir að hafa tapað fleiri hundruð milljónum

Runólfur Trausti Þórhallsson skrifar
Rebekah Vardy ásamt eiginmanni sínum Jamie þegar málið var tekið fyrir í maí á síðasta ári.
Rebekah Vardy ásamt eiginmanni sínum Jamie þegar málið var tekið fyrir í maí á síðasta ári. EPA-EFE/NEIL HALL

Rebekah Vardy, eiginkona knattspyrnumannsins Jamie Vardy, hefur fengið frasann eða orðatiltækið „Wagatha Christie“ skrásettan sem vörumerki. Vardy tapaði meiðyrðamáli sínu gegn Coleen Rooney, eiginkonu fyrrverandi knattspyrnumannsins Wayne Rooney.

Deilur Vardy og Rooney hafa verið í fréttum undanfarin ár eftir að Coleen gaf það út að Rebekah hefði verið að dreifa sögum af Coleen og Wayne í bresku slúðurpressuna. Rebekah höfðaði meiðyrðamál gegn Coleen en tapaði því og þurfti í kjölfarið að greiða allan málskostnað.

Nú hefur Rebekah skrásett frasann „Wagatha Christie.“ Um er að ræða frasa sem sameinar hugtakið „Wag“ – sem nær yfir eiginkonur og kærustur enskra knattspyrnumanna – og Agöthu Christie, rithöfund sem sérhæfði sig í „Hver er morðinginn?“ bókum.

Rebekah sótti um að fá frasann skrásettan í ágúst á síðasta ári en hún ku ekki hafa fundið upp á honum. Grínistinn Dan Atkinson segist hafa verið fyrstur til að nota frasann. Það virðist ekki hafa skipt máli þar sem Rebekah fékk frasann loks skrásettan síðasta föstudag.

Nær þetta yfir allt frá sjónvarpsútsendingum, fegurðarkremum til skartgripa og hátískufatnað. Gæti þetta gefið vel í aðra hönd, eitthvað sem Rebekah þarf eftir að henni var gert að greiða allan málskostnað.

Síðan málinu lauk hefur verið gerð heimildarmynd sem og leikrit um málið. Þau mega nú ekki nota hugtakið „Wagatha Christie“ án þess að borga.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×