Körfubolti

Jókerinn með þre­falda tvennu og Den­ver einum sigri frá undan­úr­slitum

Hjörtur Leó Guðjónsson skrifar
Nikola Jokic skoraði 20 stig, tók 11 fráköst og gaf 12 stoðsendingar í nótt.
Nikola Jokic skoraði 20 stig, tók 11 fráköst og gaf 12 stoðsendingar í nótt. Gregory Shamus/Getty Images

Átta liða úrslit NBA-deildarinnar í körfubolta héldu áfram í nótt með þremur leikjum. Nikola Jokic skilaði þrefaldri tvennu fyrir Denver Nuggets er liðið vann níu stiga sigur gegn Minnesota Timberwolves, 120-111, og Denver-liðið er nú aðeins einum sigri frá sæti í undanúrslitum.

Jokic og félagar höfðu unnið fyrstu tvo leikina í seríunni þegar kom að leik næturinnar og því ljóst að sigur myndi koma liðinu í ansi vænlega stöðu.

Nokkuð jafnræði ríkti með liðunum stærstan hluta leiksins og staðan eftir fyrsta leikhluta var jöfn, 28-28. Gestirnir frá Denver náðu þó forystuni í öðrum leikhluta og leiddu með sex stigum þegar flautað var til hálfleiks, staðan 61-55.

Nuggets-liðið náði í rauninni aldrei að slíta sig almennilega frá heimamönnum en hélt þó sömu forystu út þriðja leikhluta og liðið vann að lokum níu stiga sigur 120-111 og liðið hefur unnið alla þrjá leiki seríunnar.

Michael Porter Jr. var stigahæstur í liði Nuggets með 25 stig, en Nikola Jokic skilaði þrefaldri tvennu þegar hann skoraði 20 stig, tók 11 fráköst og gaf 12 stoðsendingar. Í liði heimamanna var Anthony Edwards atkvæðamestur með 36 stig.

Þá eru lið New York Knicks og Boston Celtics með 2-1 forystu í sínum einvígum eftir leiki næturinnar. New York vann 20 stiga sigur gegn Cleveland Cavaliers, 99-79, en Boston mátti þola átta stiga tap gegn Atlanta Hawks, 130-122.

NBA



Fleiri fréttir

Sjá meira


×