Körfubolti

Wembanyama skráir sig í nýliðavalið

Hjörtur Leó Guðjónsson skrifar
Victor Wembanyama er einn allra mest spennandi körfuboltamaður sem heimurinn hefur séð síðustu áratugi.
Victor Wembanyama er einn allra mest spennandi körfuboltamaður sem heimurinn hefur séð síðustu áratugi. Aurelien Meunier/Getty Images

Victor Wembanyama, einn mest spennandi körfuboltamaður heims síðustu tuttugu ára, hefur gefið það út að hann muni skrá nafn sitt í nýliðaval NBA-deildarinnar í körfubolta fyrir næsta tímabil.

Wembanyama er aðeins 19 ára gamall, en hefur nú þegar vakið verðskuldaða athygli á körfuboltavellinum. Hann er 219 sentímetrar á hæð og er að öllum líkindum umtalaðasti táningur körfuboltaheimsins síðan LeBron James skráði nafn sitt í nýliðavalið árið 2003.

Þrátt fyrir ungan aldur hefur Wembanyama nú þegar slegið í gegn í frönsku deildinni þar sem hann hefur skorað yfir 21 stig að meðaltali í leik, ásamt því að taka tæplega tíu fráköst að meðaltali. Hann hefur leikið 29 leiki með Metropolitans 92 í frönsku deildinni.

Búist er við því að Wembanyama verði fyrsta val í nýliðavali NBA-deildarinnar í júni. Detroit Pistons, Houston Rockets og San Antonio Spurs eru því líklegustu liðin til að krækja í leikmanninn, en Wembanyama segist vera nokkuð sama um hvar hann endar, hann vilji bara komast í NBA-deildina.

„Ég hef engar áhyggjur. Það er ekkert slæmt lið þarna,“ sagði Wembanyama.

„Ég segi aldrei við sjálfan mig að ég vilji ekki fara í eitthvað tiltekið lið. Það er engin ákvörðun röng ákvörðun.“

NBA



Fleiri fréttir

Sjá meira


×