Enski boltinn

Sonur Dag­nýjar inn­blásturinn að nýrri fata­línu hennar

Runólfur Trausti Þórhallsson skrifar
Dagný á röltinu með syni sínum eftir leik Íslands á EM sumarið 2022.
Dagný á röltinu með syni sínum eftir leik Íslands á EM sumarið 2022. Vísir/Vilhelm

Landsliðskonan Dagný Brynjarsdóttir hefur stofnað sína eigin fatalínu. Brynjar Atli Ómarsson, sonur hennar, er innblásturinn á bakvið fatalínuna.

Frá þessu greindi Dagný á Instagram-síðu sinni í gær, mánudag. Þar segir hún að hún hafi opinberlega hrint af stað sinni eigin fatalínu. Ber hún nafnið BATLI og vitnar þar með í nafn sonar síns.

Á vefsíðu fyrirtækisins segir Dagný að hún vilji helst klæðast þægilegum, nýtískulegum og kósí klæðnaði. Hún hafi lengi vel leitað að hinum fullkomna íþróttagalla (e. tracksuit) sem fellur undir þessu þrjú skilyrði. Það hafi einfaldlega ekki gengið og því hafi hún ákveðið að stofna sína eigin fatalínu.

Þar segir einnig að eftir því sem Brynjar Atli varð eldri fór hann að hafa sterkari skoðanir á því hverju fjölskyldan væri í. Að sama skapi hafi hann viljað að fjölskyldan væri í svipuðum eða einfaldlega eins fatnaði. Þannig kom hugmyndin upp um að gera íþróttagalla sem passa bæði á foreldra og börn.

Hin 31 árs gamla Dagný er í dag búsett í Lundúnum þar sem hún er fyrirliði enska efstu deildarliðsins West Ham United. Einnig hefur hún spilað 113 A-landsleiki.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×