Enski boltinn

Skilinn eftir heima eftir frekjukast

Ingvi Þór Sæmundsson skrifar
Jonjo Shelvey brást hinn versti við þegar honum var sagt að hann yrði ekki í byrjunarliði Nottingham Forest gegn Liverpool, hans gamla liði.
Jonjo Shelvey brást hinn versti við þegar honum var sagt að hann yrði ekki í byrjunarliði Nottingham Forest gegn Liverpool, hans gamla liði. getty/Jon Hobley

Jonjo Shelvey, leikmaður Nottingham Forest, var settur út úr leikmannahópi nýliðanna fyrir leikinn gegn Liverpool eftir að honum var tjáð að hann yrði ekki í byrjunarliðinu.

Steve Cooper, knattspyrnustjóri Forest, ku ekki hafa verið ánægður með frammistöðu Shelveys á æfingum og sagði honum að hann myndi ekki byrja leikinn gegn Liverpool í ensku úrvalsdeildinni.

Shelvey brást hinn versti við og þeir Cooper rifust. Það hafði lítið upp á sig fyrir Shelvey og Cooper skildi hann einfaldlega eftir utan hóps fyrir viðureignina gegn Liverpool.

Shelvey er byrjaður að æfa aftur með Forest en óvíst er hvort hann verður í leikmannahópi liðsins gegn Brighton annað kvöld. Hinn 31 árs Shelvey hefur leikið átta leiki fyrir Forest síðan hann kom til liðsins frá Newcastle United í janúarglugganum.

Forest tapaði 3-2 fyrir Liverpool á laugardaginn og er í nítjánda og næstneðsta sæti ensku úrvalsdeildarinnar.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×