Herbert Eyjólfsson, varðstjóri hjá Brunavörnum Suðurnesja, staðfestir þetta í samtali við fréttastofu. Þá hafði slökkviliðið glímt við hita hér og þar í skipinu.
„Það kom upp eldur þar sem eldhúsið er og þá jókst hitinn mikið,“ segir Herbert. Slökkviliðsmenn hafi farið niður í bátinn og náð að slökkva eldinn.
Þá hafa slökkviliðsmenn dælt sjó úr skipinu síðan í morgun. Herbert segir skipið hafa farið að halla vel.
Lögregla er á vettvangi og þá eru kafarar að dæla úr lestinni og vélarrúminu.
Slökkviliðið fékk útkall vegna brunans um klukkan tvö í nótt og voru þá sjö skipverjar um borð. Fjórir þeirra komust út að sjálfsdáðum og ómeiddir en tveir voru fluttir á sjúkrahús, annar illa haldinn með brunasár og er honum nú haldið sofandi á Landspítalanum í Fossvogi.
Pólskur karlmaður sem hefði orðið fimmtugur á árinu lést í brunanum og lætur eftir sig eiginkonu og unglingsson í Póllandi.