Erlent

Maðurinn sem rændi þrettán ára stúlku á­kærður fyrir morð á annarri stúlku

Bjarki Sigurðsson skrifar
Frá leitinni að stúlkunni.
Frá leitinni að stúlkunni. AP/Claus Bech

Maðurinn sem grunaður er um að hafa rænt þrettán ára stúlku nálægt bænum Kirkerup í Danmörku í síðasta mánuði er grunaður um að hafa myrt aðra stúlku árið 2016. Hann hefur verið ákærður af lögreglu fyrir það morð. 

Lögreglan á Suður-Sjálandi og Lolland-Falster í Danmörku hélt í dag blaðamannafund vegna rannsóknarinnar á manni sem grunaður er um að hafa rænt þrettán ára stúlku nálægt bænum Kirkerup. Stúlkan fannst á lífi tæpum sólarhring eftir að hún hvarf og var maðurinn handtekinn í kjölfarið. 

Búið er að ákæra hann fyrir að nema hana á brott og er hann einnig grunaður um að hafa nauðgað henni ítrekað á meðan hann hélt henni fastri á heimili sínu. 

Á blaðamannafundinum greindi lögreglan frá því að maðurinn, sem er 32 ára gamall, hafi einnig verið ákærður fyrir að myrða Emilie Meng árið 2016 en hún var þá sautján ára gömul. Hún fannst látin í stöðuvatni á Sjálandi á aðfangadag það ár en þá hafði hún verið týnd í fimm mánuði. 

Morðingi Meng hefur aldrei fundist en lögreglan hefur grunað nokkra um að bera ábyrgð á morðinu, meðal annars Peter Madsen sem drap blaðakonuna Kim Wall í kafbát árið 2017.

Þá var skoðað hvort morðið á Birnu Brjánsdóttur hér á landi í byrjun janúar árið 2017 tengdist morðinu á Meng. Í ljós kom þó að engin tengsl voru þar á milli. 

Að sögn lögreglunnar verður skoðað hvort maðurinn tengist öðrum óupplýstum sakamálum í landinu. Grunur um að hann tengdist morðinu á Meng kviknaði mjög snemma er hvarfið var rannsakað.

Maðurinn hefur gengist undir DNA-próf sem verður notað í málinu. Lögreglan hefur óskað eftir vinnufrið við vinnslu málsins og munu lögreglufulltrúar ekki tjá sig frekar um rannsóknina. 


Tengdar fréttir

„Að­eins skrímsli gæti gert barni þetta“

Danskur karlmaður var í dag ákærður fyrir að nema 13 ára gamla stúlku á brott. Hann er grunaður um að hafa nauðgað stelpunni ítrekað meðan hann frelsissvipti hana í rúman sólarhring. Saksóknari útilokar ekki að hann hafi haft vitorðsmenn. Móðir Filippu segir ómögulegt að setja sig í spor hennar og að fjölskyldan geri allt sem í hennar valdi stendur til þess að styðja hana.

Filippa fannst á lífi

Filippa, þrettán ára stúlka sem saknað hafði verið síðan í eftirmiðdaginn í gær, fannst á lífi í heimahúsi í Kirkerup í Danmörku í dag. 32 ára gamall karlmaður hefur verið handtekinn.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×