Flugáætlanasíðan Aeroroutes vakti nýlega athygli á því að Icelandair hefði sett Q400-vélina í áætlunarflug á nokkrar evrópskar borgir í maí og júnímánuði og nefndi Bergen, Dublin og Osló. Fréttasíðan Simple Flying fjallaði einnig um áformin og nefndi Manchester sem fjórða áfangastað Icelandair á Q400 í einni ferð í júní en sagðir flestar ferðirnar til Oslóar.
„Já, við förum fjórtán ferðir á Q400 til áfangastaða utan Íslands og Grænlands í júní,“ segir Guðni Sigurðsson, upplýsingafulltrúi Icelandair, spurður um málið en tekur fram að þetta nemi um 0,01% af rúmlega 1600 ferðum félagsins í mánuðinum.
„Þetta er gert til að búa til aukið rými til að klára viðhald á flugvélum áður en háönnin hefst,“ segir Guðni.

Icelandair keypti upphaflega þrjár Bombardier Q400-vélar einmitt með það í huga að nota þær ekki aðeins í innanlands- og Grænlandsflugi heldur einnig á styttri leiðum til Evrópu. Þannig nýtti félagið vélarnar í áætlunarflugi til bæði Belfast og Aberdeen á árunum 2016 til 2018 og tilkynnti þá að 72 sæti yrðu um borð í millilandafluginu. Núna eru sætin hins vegar 76 talsins.
Þótt Q400 vélarnar séu býsna hraðfleygar, fljúga á um 670 kílómetra hraða á klukkustund, eru þær hægfleygari en farþegaþotur Icelandair, sem venjulega fljúga á um 850 kílómetra hraða á klukkustund. Þetta þýðir lengri flugtíma á Evrópuleiðunum. Þannig segir Simple Flying að flugtíminn á Q400 milli Bergen og Keflavíkur verði 3 klukkustundir og 10 mínútur en milli Keflavíkur og Oslóar 3 klukkustundir og 50 mínútur.
Eftir að Q400-fluginu var hætt til Belfast og Aberdeen seldi Flugfélag Íslands, dótturfélag Icelandair, eina af vélunum og fækkaði þeim niður í tvær. Núna er sú þriðja að bætast aftur við.
„Við eigum von á einni Q400 til viðbótar í flotann og eigum von á henni í rekstur fyrir júní. Þegar hún kemur verða þrjár Q400 vélar og þrjár Q200 í DHC flotanum,“ segir Guðni.

„Nýja vélin mun auka sveigjanleika og bæta áreiðanleika í innanlands- og Grænlandsflugi. Við höfum aukið tíðni til áfangastaða á Grænlandi og fært Grænlandsflugið alfarið til Keflavíkur til að bæta tengiupplifun alþjóðlegra farþega,“ segir upplýsingafulltrúi Icelandair.
Hann segir jafnframt litið til þess að fjölgun flugvéla gefi félaginu tækifæri á að tengja Akureyri og jafnvel fleiri áfangastaði við leiðakerfið í Keflavík með tíð og tíma.
Óánægju hefur gætt undanfarin misseri með þjónustu Icelandair í innanlandsfluginu, eins og heyra má um þessari frétt: