Fyrsta þáttaröð af And Just Like That fór í loftið fyrir tveimur árum síðan á streymisveitunni HBO Max. Um er að ræða framhald af hinum geysivinsælu þáttum Sex And The City sem sýndir voru í ellefu ár. Nítján ár eru frá því að þættirnir hættu í sýningu en í kjölfarið voru gerðar tvær bíómyndir sem einnig nutu mikilla vinsælda.
And Just Like That segir frá lífi vinkvennanna í New York sem nú eru komnar á sextugsaldur. Fyrsta þáttaröðin naut mikilla vinsælda en hlaut þó nokkra gagnrýni fyrir það að vera ekki eins og Sex and the City þættirnir voru. Þeir sem koma að þáttunum bentu á að tímarnir væru búnir að breytast og persónurnar búnar að þroskast eins og gerist í raunveruleikanum.
Samantha hvergi sjáanleg
Þá söknuðu áhorfendur hinnar djörfu og líflegu persónu Samönthu Jones. Leikkonan Kim Cattrall neitaði að snúa aftur í þættina sökum ósættis á milli hennar í leikkonunnar Söruh Jessicu Parker sem leikur Carrie.
Á síðasta ári gaf Michael Patrick King, leikstjóri þáttanna, það út að Samantha myndi hins vegar snúa aftur í þáttaröð tvö. Hann sagðist þó ekki vilja uppljóstra of miklu fyrr en hlutirnir væru komnir alveg á hreint. Það eru því ákveðin vonbrigði að sjá að Samantha er hvergi sjáanleg í sýnishorninu. Líklega bregður henni þó fyrir í söguþræðinum án aðkomu Cattrall.
Aidan snýr aftur
Í nýju þáttaröðinni eru vinkonurnar komnar á gjörólíkan stað í lífinu heldur en þær voru á í þáttunum Sex and the City. Carrie er ekkja, Miranda er lesbía og Charlotte glímir við nýjar áskoranir sem fylgja því að eiga börn á kynþroskaaldri. Af sýnishorninu að dæma verður nýja þáttaröðin þó stútfull af tísku, kynlífi og kokteilum.
Þá mætir gamalt eftirlæti áhorfenda, Aidan Shaw, fyrrverandi kærasti Carrie, aftur til leiks.
„Og rétt sí svona áttaði ég mig á því að sumir hlutir eru betur geymdir í fortíðinni - en kannski ekki alveg allir,“ heyrist Carrie segja þegar sá fyrrverandi birtist fyrir utan tröppurnar goðsagnakenndu fyrir utan heimili hennar.
Sýnishornið má sjá hér að neðan.