Innlent

Upp­sagnir í Kópa­vogi og stöðu­gildum fækkað

Oddur Ævar Gunnarsson skrifar
Skipulagsbreytingar voru kynntar á fundi bæjarstjórnar Kópavogs í gær.
Skipulagsbreytingar voru kynntar á fundi bæjarstjórnar Kópavogs í gær. Kópavogsbær

Stöðugildum fækkar um fjögur vegna skipulagsbreytinga á vegum Kópavogsbæjar sem tengjast starfsemi menningarhúsa bæjarins og samþykktar voru á bæjarstjórnarfundi í gær. Stöðugildum verður fjölgað um þrjú við Gerðarsafn. Alls munu níu missa vinnuna vegna skipulagsbreytinga hjá Kópavogsbæ.

Þetta er meðal þess sem fram kemur í svörum bæjarins við fyrirspurn Vísis. Ásdís Kristjánsdóttir, bæjarstjóri Kópavogs, lagði í gær fram tillögur um breytingar á starfsemi menningarhúsanna og að leggja niður Héraðsskjalasafn Kópavogsbæjar.

Menningarhús bæjarins eru nú Gerðarsafn, Bókasafn Kópavogs, Lindasafn, Náttúrufræðistofa Kópavogs, Salurinn, auk Héraðsskjalasafns Kópavogs.

Stöðugildum fækkað og fjölgað

Í svörum bæjarins kemur fram að í Bókasafni Kópavogs muni tveir starfsmenn missa vinnuna.

Þá hefur starfsfólki í Náttúrufræðistofnun Kópavogs verið tilkynnt um að uppsagnir taki gildi 1. júní og er um að ræða 5,25 stöðugildi á höndum sjö starfsmanna, að sögn svara frá upplýsingafulltrúa bæjarins.

Segir í svörunum að stöðugildum við Gerðarsafn verði fjölgað um þrjú og safnhluti Náttúrufræðistofu heyra undir safnið. Því muni fylgja stöðugildi.

„Þess vegna er heildar fækkun stöðugilda fjögur, eins og fram kemur í tillögum bæjarstjóra að nýjum sóknarfærum í starfsemi menningarhúsa Kópavogsbæjar,“ segir í svörum bæjarins.

„Þess má geta að samþykkt hefur verið að leggja Héraðsskjalasafn Kópavogs niður en enn á eftir að vinna að útfærslu þess, ásamt því að ræða við Þjóðskjalasafn Íslands. Ekki hefur komið til uppsagna að svo stöddu. Ekki er um hópuppsögn að ræða.“

Uppfært klukkan 23:46:

Í upprunalegu fréttinni stóð að fjórir myndu missa vinnuna vegna breytinga á menningarhúsum Kópavogs. Hið rétta er að stöðugildum mun fækka um fjögur í menningarhúsum. Hins vegar munu samanlagt níu missa vinnuna vegna skipulagsbreytinga í menningarhúsum og vegna uppsagna í náttúrufræðistofu Kópavogs og bókasafni Kópavogs.


Tengdar fréttir

Leggja niður Héraðs­skjala­safn Kópa­vogs­bæjar

Bæjarstjórn Kópavogs hefur ákveðið að leggja niður Héraðsskjalasafn Kópavogsbæjar og fara í samvinnu við Þjóðskjalasafn um að taka við safnkostinum. Ákvörðunin er tekin fáeinum vikum eftir að borgarstjórn Reykjavíkur ákvað að leggja niður Borgarskjalasafn.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×