Innlent

Hnífa­þjófnaður, há­reysti og líkams­á­rásir meðal verk­efna lög­reglu

Hólmfríður Gísladóttir skrifar
Lögregla hafði í nokkru að snúast í gærkvöldi og í nótt.
Lögregla hafði í nokkru að snúast í gærkvöldi og í nótt. Vísir/Vilhelm

Lögreglan á höfuðborgarsvæðinu sinnti fjölbreyttum verkefnum í gærkvöldi og nótt og var meðal annars kölluð út vegna einstaklings sem var staðinn að því að stela hnífum úr ónefndri verslun og fela þá innan klæða.

Viðkomandi reyndist eftirlýstur vegna annars brots sem hann framdi fyrr um daginn og var handtekinn.

Lögreglu barst einnig tilkynning vegna þjófnaðar þar sem þremur rafmagnshlaupahjólum hafði verið stolið úr starfsmannaaðstöðu í verslun í miðbænum. Þá var tilkynnt um innbrot í fyrirtæki og innbrot í geymslu.

Einn var handtekinn á fjórða tímanum í nótt, í stigagangi í fjölbýlishúsi. Handtekni býr í húsinu en hafði haldið vöku fyrir nágrönnum sínum alla nóttina með öskrum, hárri tónlist og hurðarskellum. Þá hafði hann verið með ónæði í dyrasímanum og grýtt matarleifum á stigaganginum.

Maðurinn var vistaður í fangageymslu.

Lögreglu barst einnig tilkynning um slagsmál tveggja manna og hitti annan þeirra fyrir á vettvangi. Sá var fluttur á sjúkrahús með áverka eftir eggvopn. Þá barst önnur tilkynning um líkamsárás þar sem þrír voru sagðir hafa veist að einum og ræddi lögregla við þolandann.

Nokkur umferðaróhöpp urðu á höfuðborgarsvæðinu á vaktinni, tvö þar sem bifreiðar lentu saman. Í öðru tilvikinu virðist færðin hafa átt þátt að máli en í hinu tilvikunu stakk annar ökumaðurinn af. Fannst hann þó seinna og verður kærður fyirr að vanrækja að tilkynna lögreglu um slys.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×