Umfjöllun: Ísrael - Ísland 26-37 | Ísland á EM eftir sannfærandi sigur í Tel Aviv

Andri Már Eggertsson skrifar
_O2A8326 (2)
vísir/hulda margrét

Ísland vann sannfærandi ellefu marka sigur á Ísrael í Tel Aviv 26-37. Sigurinn tryggði Íslandi farseðilinn á EM í Þýskalandi 2024. 

Janus Daði Smárason opnaði leikinn með því að skora þrjú af fyrstu fjórum mörkum Íslands. Vörn Íslands var afar þétt og öflug strax frá fyrstu mínútu. Heimamenn skoruðu sitt fyrsta mark úr opnum leik eftir tæplega sjö mínútur.

Kristján Örn Kristjánsson var mikið í fjölmiðlum í aðdraganda landsleikjanna þar sem fjallað var um samskipti hans og Björgvins Páls Gústavssonar. Kristján var langt frá því að vera með það í kollinum og var frábær. Kristján gerði sex af fyrstu tólf mörkum Íslands.

Ísrael passaði vel upp á Óðin Þór Ríkharðsson og gaf honum ekkert pláss. Það myndaði stórt svæði fyrir hægri skyttuna sem Ísland nýtti sér. Kristján og Teitur Örn skoruðu samanlagt átta mörk úr níu skotum í fyrri hálfleik.

Í stöðunni 9-11 keyrði Ísland yfir Ísrael og gekk frá leiknum á síðustu tólf mínútum fyrri hálfleiks. Ísland endaði fyrri hálfleik á 2-8 áhlaupi. Ísland var átta mörkum yfir í hálfleik 11-19.

Línumaður Ísraels, Snir Natsia, var mesta ógn heimamanna. Það eina sem gekk vel í leikplani Ísraels var að finna línuna. Natasia var markahæstur hjá Ísrael með sjö mörk úr jafn mörgum skotum. 

Ísland gaf ekkert eftir og byrjaði seinni hálfleik afar vel. Þegar níu mínútur voru liðnar af seinni hálfleik var Ísland tólf mörkum yfir 14-26.

Ísrael minnkaði muninn minnst niður í sjö mörk í seinni hálfleik en nær komust heimamenn ekki og Ísland vann að lokum ellefu marka sigur 26-37.

Sigurinn tryggði Íslandi farseðilinn á EM í Þýskalandi 2024. 

Af hverju vann Ísland?

Þetta var skólabókardæmi um frábæra frammistöðu sem skilar alltaf sigri. Markvarsla Íslands var góð þar sem Viktor Gísli Hallgrímsson stóð vaktina vel og varði 15 skot. Varnarleikur Íslands var góður og sóknarleikurinn skilaði 37 mörkum.

Hverjir stóðu upp úr?

Kristján Örn Kristjánsson fór á kostum og var markahæstur með átta mörk. 

Viktor Gísli Hallgrímsson var frábær í marki Íslands og sýndi það að hann er markmaður númer eitt. Viktor Gísli varði 15 skot og endaði með 40 prósent markvörslu.

Þorsteinn Leó Gunnarsson spilaði sinn fyrsta landsleik í dag og skoraði sitt fyrsta landsliðsmark. 

Hvað gekk illa?

Það er lítið hægt að setja út á leik Íslands. Eina sem Ísland var í vandræðum með var línuspil Ísraels sem var þeirra hættulegasta vopn.

Hvað gerist næst?

Ísland fær Eistland í heimsókn á sunnudaginn klukkan 16:00. Þrátt fyrir að sæti á EM sé tryggt þá er mikilvægt að vinna leikinn á sunnudaginn til að tryggja efsta sætið í riðlinum. 

Bein lýsing

Leikirnir






    Fleiri fréttir

    Sjá meira