Innherji

Fjár­mála­ráð­herra til­nefnir Björk sem vara­seðla­banka­stjóra fjár­mála­eftir­lits

Hörður Ægisson skrifar
Björk Sigurgísladóttir.
Björk Sigurgísladóttir.

Bjarni Benediktsson, fjármála- og efnahagsráðherra, hefur tilnefnt Björk Sigurgísladóttur í embætti varaseðlabankastjóra fjármálaeftirlits Seðlabanka Íslands. Það er forsætisráðherra sem mun síðan skipa í embættið en Björk starfar nú sem framkvæmdastjóri háttsemiseftirlits hjá Seðlabankanum.

Björk tekur við embættinu af Unni Gunnarsdóttur, sem hafði stýrt fjármálaeftirlitinu frá árinu 2012, sem lætur formlega af stöfum um mánaðarmótin.

Í tilkynningu frá fjármála- og efnahagsráðuneytinu er nefnt að ráðherra hafi skipað hæfnisnefnd til að fjalla um hæfni þeirra sex umsækjenda sem sóttust eftir embættinu og lauk nefndin störfum sínum síðastliðinn miðvikudag. Auk Bjarkar voru umsækjendurnir meðal annars Gísli Óttarsson, framkvæmdastjóri varúðareftirlits í Seðlabankanum, Guðrún Þorleifsdóttir, skrifstofustjóri í fjármálaráðuneytinu og nefndarmaður í fjármálaeftirlitsnefnd, Óttar Guðjónsson, framkvæmdastjóri Lánasjóðs sveitarfélaga og Sigurður Erlingsson, fyrrverandi forstjóri Íbúðalánasjóðs.

Niðurstaða hæfnisnefndarinnar var að meta alla sex umsækjendur hæfa til að gegna því en tveir þeirra bæru þó hins vegar af. Eftir að niðurstaða nefndarinnar lá fyrir dró annar þeirra umsókn sína til baka.

Í lögum um Seðlabanka Íslands er forsætisráðherra falið að skipa seðlabankastjóra og þrjá varaseðlabankastjóra en varaseðlabankastjóri fjármálastöðugleika og varaseðlabankastjóri fjármálaeftirlits eru skipaðir að fenginni tilnefningu fjármála- og efnahagsráðherra.

Björk er lögfræðingur að mennt, með LLM gráðu frá University of Iowa og MBA gráðu frá University of Northern Iowa. Hún hefur undanfarin ár verið framkvæmdastjóri lagalegs eftirlits og vettvangsathugana hjá Fjármálaeftirlitinu og Seðlabanka Íslands og starfar nú sem framkvæmdastjóri háttsemiseftirlits hjá Seðlabanka Íslands.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×