Fótbolti

Næstum því helmingur um­boðs­mannanna féll á nýja FIFA prófinu

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Undanfarin ár hefur verið mjög hagstætt að vera umboðsmaður Erling Haaland.
Undanfarin ár hefur verið mjög hagstætt að vera umboðsmaður Erling Haaland. Getty/Joe Prior

Alþjóða knattspyrnusambandið er að herða kröfurnar á umboðsmenn fótboltans og það lítur út fyrir að nýja umboðsmannaprófið hafi sýnt að allt of margir þeirra séu ekki starfi sínu vaxnir.

Aðeins 1962 manns náði umboðsmannaprófinu af þeim 3800 sem reyndu við það. Hér erum við að tala um umboðsmenn út um allan heim. Það þýðir að aðeins 52 prósent náðu þessu prófi. Til að ná því þurfti að svara 75 prósent spurninganna rétt.

Umboðsmennirnir þurfa að standast þetta próf til að fá leyfi til að koma að félagsskiptum og gerð samninga leikmanna frá og með október næstkomandi.

Umboðsmenn út um allan heim eru reyndar að nota lögfræðileiðina til að koma í veg fyrir að FIFA get sett slíkar kröfur á þá.

Það er ekki nóg með að þeir þurfti að standast þetta próf þá mun FIFA einnig setja hámark á því sem umboðsmennirnir geta tekið í eigin vasa við gerð samninga. Þar er það sem hákarlar stéttarinnar eru fyrst og fremst ósáttir með.

Það er löngu orðið ljóst að tekjur margra umboðsmanna eru komnar út í hreina vitleysu en hundrað milljónir Bandaríkjadala fara á hverju ári í vasa umboðsmanna fótboltamanna.

Annað próf verður haldið í september og þar fá þeir sem féllu annað tækifæri. Það er reyndar ekki ódýrt að falla á þessu prófi því hvert próf kostar umboðsmanninn 600 dollara eða 82 þúsund krónur íslenskar.

Umboðsmennirnir þurftu þar að svara tuttugu spurningum á einum klukkutíma og gátu valið um að taka prófið á ensku, frönsku eða spænsku.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×