Tvöfalt fleiri heimilislausir létust af völdum ofneyslu á tímabilinu janúar og fram í mars heldur en á sama tímabili í fyrra. Þá var þriðjungur látnu svartur, þrátt fyrir að aðeins 5 prósent íbúa San Francisco séu svartir.
Aukningin hófst í desember og náði hámarki í janúar, þegar 82 létust. Skömmu áður hafði borgarstjórinn, London Breed, ákveðið að loka Tenderloin Center, dagvistunarúrræði fyrir heimilislausa þar sem boðið var upp á mat og heilbrigðisþjónustu.
Miðstöðin hafði einnig heimilað fíknisjúklingum að nota fíkniefni á útisvæði við þjónustumiðstöðina, undir eftirliti, og samkvæmt gögnum frá borgaryfirvöldum höfðu starfsmenn 330 sinnum á þeim ellefu mánuðum sem miðstöðin var starfrækt komið í veg fyrir andlát af völdum ofneyslu með því að gefa Narcan.
Narcan er nefúði sem inniheldur naloxone, sem hindrar og snýr við áhrifum ópíóða.
Í flestum tilvikum þar sem einstaklingar létust af völdum ofneyslu kom fentanyl við sögu.
Þegar ákveðið var að loka þjónustumiðstöðinni sagði borgarstjórinn að það hefði ollið vonbrigðum hversu fáir sem sóttu þjónustuna þáðu meðferð. Breed ákvað á sama tíma að leggja aukna áherslu á löggæslu og ekki síst handtökur fíknefnasala.
Guardian hefur eftir Daniel Ciccarone, prófessor í meðferð fíknisjúkdóma við University of California í San Francisco, að aukin áhersla á að refsa fíknisjúklingum hafi aðeins leitt til þess að dauðsföllum af völdum ofneyslu hafi aukist.
Hann segir íbúa San Francisco skiptast í tvær fylkingar; aðra sem eigi peninga og vilji fíkniefnin burt af götunum og hina sem telji að réttast sé að taka á vandanum af samkennd og útfrá heilbrigðissjónarmiðum.
Ciccarone segir úrræði á borð við þjónustumiðstöðina þurfa meira en ellefu mánuði til að sanna sig og að áþekkar miðstöðvar annars staðar í heiminum, til að mynda Ástralíu, hafi sýnt fram á að það sé hægt að draga úr dauðsföllum af völdum ofneyslu, koma notkuninni af götunum og fólki í meðferð.
Gary McCoy hjá baráttusamtökunum HealthRIGHT 360, sem sáu um skaðaminnkunarúrræði Tenderloin Center, segir aukna áherslu á löggæslu ekki aðeins verða til þess að ýta neyslunni „neðanjarðar“.
„Þegar fólk hefur ekki öruggan stað til að leita á, þegar það er að nota í dyragáttum og í almenningsrýmum og er hrætt við að nást og verða fangelsað, þá á það til að flýta sér og taka meira,“ segir McCoy. „Og þegar fólk flýtir sér eykst hættan á ofskömmtun.“