Körfubolti

Embla: Vissum að þetta kæmi á endanum ef við héldum áfram allan leikinn

Árni Jóhansson skrifar
Embla Kristínardóttir með uppskeru tímabilsins.
Embla Kristínardóttir með uppskeru tímabilsins. Vísir / Hulda Margrét

Embla Kristínardóttir var hetja Valskvenna þegar hún skoraði þrjú af fimm síðustu stig liðsins sem gerði það að verkum að Valur vann Keflavík 72-68 og einvígið um Íslandsmeistaratitilinn 3-1. Embla setti niður þriggja stiga skot til að koma Valskonum yfir áður en Hildur Björg Kjartansdóttir setti niður tvö víti til að klára leikinn að fullu.

Embla var að sjálfsögðu spurð að því hvernig tilfinningin væri strax eftir að leik lauk og hvernig tilfinnigin var að klára leikinn fyrir liðið sitt.

„Mér líður bara frábærlega. Þetta er æðislegt. Þetta var bara geggjað að koma til baka og vinna titilinn strax. Úrslitakeppnin snýst mest um reynslu.“

Embla er náttúrlega margreynd keppnismanneskja og var spurð að því hvernig Valskonur sneru leiknum sér í vil en Keflavík var með frumkvæði þrjá fjórðu af leiknum.

„Við héldum bara áfram sterkt allan leikinn. Vera sterkar andlega og við vissum að þetta kæmi á endanum ef við hélum áfram allan leikinn.“

Hún var spurð þá hvort það hafi skipt máli að þær hafi verið andlega sterkari frekar en með taktíkina á hreinu.

„Já eins og ég segi, liðsheildin og bara allt í gegnum þennan leik. Við vissum að við yrðum að gera þetta saman.“


Tengdar fréttir

Kiana: Það trúði engin að við myndum vinna mótið

Kiana Johnson var valin besti leikmaður úrslitakeppni Subway deildar kvenna þegar uppi var staðið. Hún leiddi Valskonur til sigurs í kvöld og einvíginu við Keflavík og hampaði titlinum. Hún skilaði 13 stigum, átta fráköstum og fimm stoðsendingum í kvöld þegar Valskonur unnu fjórða leikinn 72-68. Hún taldi að vantrú annarra hafi drifið Valsliðið áfram.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×