Enski boltinn

Marka­súpa í fyrsta leik dagsins

Runólfur Trausti Þórhallsson skrifar
Úr leik dagsins.
Úr leik dagsins. John Walton/Getty Images

Crystal Palace vann West Ham United í stórskemmtilegum leik í fyrsta leik dagsins í ensku úrvalsdeildinni. Lokatölur 4-3 og Palace svo gott sem búið að bjarga sér frá falli.

Bæði lið eru með falldrauginn á hælunum en sigur Palace kemur liðinu upp í 40 stig sem eiga að duga til að halda sæti sínu. Leikur dagsins var eins og lokatölurnar gefa til kynna frábær skemmtun. Fyrsta mark dagsins skoraði Tomáš Souček fyrir Hamrana en þeir voru ekki lengi í paradís.

Jordan Ayew jafnaði metin þegar stundarfjórðungur var liðinn og Wilf Zaha kom heimamönnum yfir fimm mínútum síðar. Tíu mínútum eftir það var staðan orðin 3-1 þökk sé marki Jeffrey Schlupp.

Þannig var hún ekki lengi en Michail Antonio jafnaði metin fimm mínútum síðar og staðan 3-2 í hálfleik. Síðari hálfleikurinn var heldur rólegri um miðbik hans fengu heimamenn mjög svo ódýra vítaspyrnu.

Eberechi Eze var lítið að pæla í því og skoraði af öryggi. Nayef Aguerd, sem gaf vítaspyrnuna, minnkaði muninn skömmu síðar. Staðan 4-3 og enn nóg eftir. West Ham gerði hvað það gat til að jafna metin en allt kom fyrir ekki og leiknum lauk með 4-3 sigri heimamanna. Roy Hodgson hefur þar með unnið fjóra af þeim sex leikjum sem hann hefur stýrt Palace á leiktíðinni.

Palace fer upp í 11. sæti með 40 stig á meðan West Ham er í 15. sæti með 34 stig, fimm stigum frá fallsæti.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×