Handbolti

„Hér eru bara menn sem dreymir um að spila á Ólympíuleikum“

Hjörtur Leó Guðjónsson skrifar
Gunnar Magnússon er bráðabirgðalandsliðsþjálfari Íslands.
Gunnar Magnússon er bráðabirgðalandsliðsþjálfari Íslands. Vísir/Vilhelm

„Ég var ánægður með frammistöðuna. Þetta var góður fyrri hálfleikur og við tókum frumkvæðið strax í leiknum og hleyptum þeim ekkert inn í leikinn,“ sagði Gunnar Magnússon, þjálfari íslenska karlalandsliðsins í handbolta um leik liðsins gegn Ísrael í vikunni eftir æfingu liðsins í dag.

Íslensku strákarnir unnu öruggan sigur gegn Ísrael á útivelli síðastliðinn fimmtudag og um leið gulltryggði liðið sér sæti á EM.

„Við höfðum stjórn á leiknum í sextíu mínútur þannig að ég var bara mjög ánægður með frammistöðuna í síðasta leik,“ bætti Gunnar við.

„Strákarnir eru einbeittir“

Eftir mikla, og oft á tíðum frekar neikvæða, umræðu um íslenska karlalandsliðið í handbolta undanfarnar vikur svöruðu strákarnir fyrir sig með fagmannlegri frammistöðu í síðasta leik.

„Menn sýndu fyrst og fremst bara fagmennsku fannst mér. Menn voru virkilega einbeittir og við undirbjuggum okkur náttúrulega bara vel og einbeittum okkur mikið að okkur sjálfum og handboltanum auðvitað.“

„Mér fannst bara strákarnir virkilega einbeittir í þessu og það er mikið undir í þessum leikjum. Þó þetta séu þessi lið þá þurfum við að vinna báða þessa leiki til að vinna riðilinn. Það er bara mikið undir á morgun líka og strákarnir eru einbeittir og við ætlum okkur bara að klára þetta verkefni,“ sagði Gunnar, en íslenska liðið tekur á móti Eistlandi á morgun í lokaleik undankeppni EM sem fram fer í Þýskalandi í janúar á næsta ári.

Klippa: Gunnar Magnússon fyrir leik Íslands og Eistlands

Leikur morgundagsins mikilvægur fyrir tvö stórmót á næsta ári

Þá segir Gunnar að umræðan um þjálfaramál íslenska landsliðsins hafi ekki haft áhrif á strákana í liðinu.

„Nei við auðvitað reynum að fókusa bara á þetta verkefni. Það er það mikið undir og leikurinn á morgun snýst um að loka þessu almennilega. Það eru tvö stórmót á næsta ári og það er himinn og haf á milli þess hvort við séum í fyrsta eða þriðja styrkleikaflokki á EM. Bæði upp á EM og svo erum við að tala um Ólympíuleika líka.“

„Hér eru bara menn sem dreymir um að spila á Ólympíuleikum og við erum bara fókuseraðir á þetta verkefni og komum vel undirbúnir í leikinn á morgun og einbeittir að loka þessu.“




Fleiri fréttir

Sjá meira


×