Blaðamaðurinn Karl Th. Birgisson greindi frá stefnunni í gær á samfélagsmiðlum. En hann var fastur pistlahöfundur í Fréttablaðinu um langt skeið. Samkvæmt yfirlýsingu frá Karli eru stefnendur hátt á annan tug fólks sem starfaði hjá Torgi. En félagið rak auk Fréttablaðsins, sjónvarpsstöðina og vefmiðilinn Hringbraut auk vefmiðilsins DV sem seldur var út úr félaginu.
„Að ráði lögmanns höfum við nú undirbúið höfðun einkamáls á hendur ykkur,“ segir Karl í yfirlýsingunni. Er málið byggt á því að að í lögum um gjaldþrotaskipti beri eigendur og stjórnendur félags persónulega ábyrgð ef þeir vanrækja að setja félag í þrot, en halda áfram að taka við vörum og þjónustu, vitandi vits að félagið sé ógjaldfært.
„Þetta er ekki launakrafa, heldur krafa um skaðabætur,“ segir Karl.
Ekki rétt í Ábyrgðarsjóði
Verktakarnir eru ekki í Blaðamannafélaginu sem gerir kröfu í þrotabú Torgs fyrir hönd starfsfólksins. En launakröfur eru forgangskröfur í þrotabú. Þá eiga verktakar heldur ekki rétt á greiðslum úr Ábyrgðarsjóði launa ef engar eignir finnast í búinu.

Samkvæmt Karli verður bréfið sent til aðaleigenda og framkvæmdastjóra Torgs á mánudag, verkalýðsdaginn.
„Við erum mörg og málskostnaður per haus því ekki ýkja mikill, ef málinu lyktar þannig,“ segir Karl. „Hann er varla heldur þungbær á ykkar mælikvarða, en niðurstaðan gæti orðið því dýrkeyptari fyrir ykkur ef þið sjáið ekki hag ykkar í því að gera upp við fólk sem vann hjá ykkur, og getur ekki látið skattgreiðendur borga skuldir ykkar. Þið sögðust raunar myndu gera þetta á fundi með starfsfólki. Það reyndust vera ósannindi. Fjárhæðirnar eru smotterí í ykkar samhengi, en skipta þá máli sem í hlut eiga.“
Enn fremur segir að gefinn verði kostur á að gera upp við verktakana áður en til málaferla kemur.
Ekki náðist í stefnendur fyrir birtingu þessarar fréttar.