Körfubolti

Hélt eld­ræðu fyrir leik og skaut Stríðs­mönnunum svo í undan­úr­slit

Runólfur Trausti Þórhallsson skrifar
Draymond Green er ánægður með að vera með Stephen Curry í liði.
Draymond Green er ánægður með að vera með Stephen Curry í liði. Ezra Shaw/Getty Images

Golden State Warriors vann Sacramento Kings í oddaleik í fyrstu umferð úrslitakeppni NBA deildarinnar í körfubolta. Stephen Curry bauð til veislu en hann skoraði 50 stig í leiknum. Hann hélt einnig eldræðu fyrir leik sem kveikti í liðsfélögum hans.

Curry var brjálaður eftir að ríkjandi meistararnir töpuðu leik sex þar sem honum fannst frammistaða liðsins ekki boðleg. Curry og Draymond Green gátu hvorugur sofið eftir leik og ræddu saman í gegnum smáskilaboð. 

Þar lagði Curry grunninn að eldræðunni sem hann hélt degi fyrir oddaleikinn sem fram fór í gær, sunnudag. Green fór yfir eldræðuna í hlaðvarpi sínu.

„Get ekki sofið heldur en leyfðu mér að segja svolítið fyrir myndbandsfundinn á morgun,“ sagði í smáskilaboðunum frá Curry.

„Ég get ekki sagt að ég hafi reiknað með að hann myndi skora 50 stig en ég vissi að það væri ekki möguleiki að hann myndi leyfa okkur að tapa þessum leik,“ sagði Green um tilfinningu sína á þessum tímapunkti.

„Hlustið, við vorum gerðir að fíflum á heimavelli í gær. Við fengum tækifæri til að klára dæmið en við mættum ekki til leiks. Ef þið mætið í rútuna þá eruð þið að skuldbinda ykkur þessu liði. Mér er alveg sama hversu margar mínútur þið spilið, hvort þið spilið ekki eina sekúndu, mér er sama hvort það eruð stig eða fráköst, hvað sem er,“ sagði Curry og hélt áfram.

„Ef þið mætið í rútuna þá eruð þið að segja að þið séuð tilbúnir að gera hvað sem er til að vinna þennan leik. Við ætlum ekki að falla úr leik á þennan hátt. Við fáum að spila í oddaleik, það er sjaldgæft. Njótið augnabliksins og nýtið það.“

Curry leiddi svo með fordæmi þegar hann varð stigahæsti leikmaður í sögu oddaleikja í NBA deildinni. Skoraði hann 50 stig, tók 8 fráköst og gaf 6 stoðsendingar í 20 stiga sigri Golden State, lokatölur 120-100 meisturunum í vil. Mæta þeir Los Angeles Lakers í undanúrslitum vesturdeildarinnar.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×