Enski boltinn

Maddi­son brenndi af víti í falls­lag Leicester og E­ver­ton

Runólfur Trausti Þórhallsson skrifar
Jordan Pickford varði víti frá James Maddison.
Jordan Pickford varði víti frá James Maddison. Catherine Ivill/Getty Images

Leicester City og Everton gerðu 2-2 jafntefli í eina leik dagsins í ensku úrvalsdeildinni. James Maddison, leikmaður Leicester, brenndi af vítaspyrnu í stöðunni 2-1 fyrir Leicester.

Bæði lið eru í gríðarlega harðri fallbaráttu og þurfa sárlega á þremur stigum að halda. Dominic Calvert-Lewin kom gestunum í Everton yfir með marki úr vítaspyrnu þegar stundarfjórðungur var liðinn.

Çağlar Söyüncü og Jamie Vardy svöruðu fyrir heimamenn sem voru allt í einu komnir 2-1 yfir þegar 33 mínútur voru liðnar. Það var svo í blálok fyrri hálfleiks sem heimaliðið fékk vítaspyrnu.

Maddison, sem átti stoðsendinguna þegar Vardy skoraði, fór á punktinn. Jordan Pickford hafði hins vegar unnið heimavinnuna sína og varði spyrnuna. Staðan því enn 2-1 þegar flautað var til loka fyrri hálfleiks.

Alex Iwobi jafnaði svo metin fyrir gestina í síðari hálfleik og þar við sat þótt bæði lið hafi átt fjöldann allan af misgóðum skotum.

Lokatölur í Leicester 2-2 og bæði lið því áfram í bullandi fallbaráttu. Leicester er í 16. sæti með 30 stig á meðan Everton er í 19. sæti með 29 stig þegar fjórar umferðir eru eftir af tímabilinu.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×