Erlent

„Það er ekki þannig sem hvítir menn slást“

Hólmfríður Gísladóttir skrifar
Carlson var látin fara frá Fox í apríl en hefur þegar boðað endurkomu sína. Á hvaða vettvangi er óljóst.
Carlson var látin fara frá Fox í apríl en hefur þegar boðað endurkomu sína. Á hvaða vettvangi er óljóst. AP/Richard Drew

Uppgötvun skilaboða sem sjónvarpsmaðurinn Tucker Carlson sendi framleiðanda hjá Fox News leiddi til röð atburða sem urðu til þess að forsvarsmenn Fox ákváðu að gera dómsátt við Dominion Voting Systems og láta Carlson fjúka.

Frá þessu greinir New York Times en í skilaboðunum lýsir Carlson tilfinningum sínum og hugsunum þegar hann horfði á myndskeið þar sem nokkrir stuðningsmenn Trump umkringdu og lúbörðu dreng, sem Carlson segir hafa tilheyrt andfasísku Antifa-hreyfingunni.

„Þetta voru, að minnsta kosti, þrír gegn einum,“ segir Carlson um myndskeiðið í skilaboðunum. „Að ráðast gegn manni með þeim hætti er augljóslega ekki heiðursmannlegt. Það er ekki þannig sem hvítir menn slást. En skyndilega upplifði ég mig halda með múgnum gegn manninum, ég vonaði að þeir myndu berja hann fastar, drepa hann. Mig langaði virkilega að þeir meiddu krakkann. Ég fann bragðið af því.“

Carlson segist svo hafa rankað við sér; áttað sig á því að þetta væri ekki í lagi. Hann væri að verða eitthvað sem hann vildi ekki verða. Krakkinn væri manneskja, hversu mikið sem Carlson fyrirliti afstöðu hans.

New York Times hefur eftir heimildarmönnum að þegar forsvarsmenn Fox hefðu fengið vitneskju um skilaboðin hefðu þeir strax haft áhyggjur af því að þau yrðu gerð opinber í dómsmálinu sem Dominion Voting Systems höfðaði gegn sjónvarpsstöðinni vegna lyga um svindl í forsetakosningunum 2020.

Ákveðið var að fá utanaðkomandi aðila til að rannsaka Carlson en skilaboðin og fleiri innanhúsmál sem tengdust sjónvarpsmanninum hefðu orðið til þess að stjórnendur fyrirtækisins mátu það sem svo að þrátt fyrir svimandi háar áhorfstölur fylgdu Carlson meiri vandamál en virði.

Skilaboðin voru meðal gagna sem voru birt í tengslum við dómsmálið en höfðu verið máð út. New York Times og fleiri miðlar hafa hvatt dómara til að birta öll þau skilaboð sem voru máð út í málsgögnunum.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×