Eins og greint var frá á Vísi á mánudag er farsímasamband á neðra plani Gullfoss mjög slitrótt. Leiðsögumaðurinn Halldór Jón Jóhannesson lenti í því 26. Apríl síðastliðinn þegar tónlistarmaðurinn, vinur hans og kollegi Hjörtur Howser hneig niður við Gullfoss að símtal hans við neyðarlínuna rofnaði. Halldór þurfti þannig að hringja aftur, annar neyðarvörður svaraði, fletta þurfti málinu upp sem skapaði tilheyrandi tafir.
Samtök ferðaþjónustunnar hafa gagnrýnt þetta slæma símasamband, sérstaklega í ljósi þess hve margir heimsækja fossinn á hverjum degi. Leiðsögumenn telja að á góðum sumardegi heimsæki um fimmtán til tuttugu þúsund Gullfoss og Geysi.
„Slíkt er einfaldlega ekki í boði nú árið 2023. Þegar slys eða óhöpp ríða yfir geta mínútur skipt máli. Mínútur sem geta skipt sköpum er varðar líf eða dauða einstaklinga sem í því lenda,“ segir Stefán Vagn Stefánsson, þingmaður Framsóknar, en hann vakti máls á gölluðum fjarskiptum á landsbyggðinni á Alþingi fyrr í dag.
Vill 5G að færeyskri fyrirmynd
Hann segir málið einnig geta skipt viðbragðsaðila á vettvangi miklu máli.

„Að geta verið í sambandi við sitt bakland er kemur að því að kalla til fleiri bjargir og skipuleggja aðgerðir, sem oft geta verið stórar og flóknar og kalla oft á mikla samhæfingu mismunandi viðbragðsaðila,“ segir Stefán.
Því liggi á núna, þegar búist er við mikilli fjölgun ferðamanna, að aukinn kraftur sé settur í uppbyggingu fjarskiptanets á þessum stöðum og leggur áherslu á uppbyggingu svokallaðs 5G kerfis að færeyskri fyrirmynd.
„Gengur það út á að öll fjarskipti viðbragðsaðila fari fram í gegn um 5G kerfið í síma viðkomandi aðila,“ segir Stefán.
„Hér erum viðað byggja tvöfalt kerfi. Hefðbundið farsímakerfi og
Tetra-fjarskiptaneyðarkerfi, sem neyðaraðilar nota með tvöföldum kostnaði. Það er mín skoðun að við eigum að hefja vinnu við að skoða færeyska módelið og skoða kosti þess að byggja upp eitt kerfi.“
Þannig mætti ná til stærra svæðis og minnka kostnað.
„[Það mætti] nota þá fjármuni sem nota á til uppbyggingu tveggja kerfa í eitt. Með þeirri leið væri hægt að fjölga gríðarlega sendum, sem myndi nýtast bæði fyrir neyðaraðila og almenning.“