Körfubolti

Haukur Helgi yfirgefur Njarðvík

Smári Jökull Jónsson skrifar
Haukur Helgi Pálsson gerði 21 stig í kvöld
Haukur Helgi Pálsson gerði 21 stig í kvöld Vísir/Hulda Margrét

Landsliðsmaðurinn Haukur Helgi Pálsson hefur ákveðið að segja skilið við Njarðvík en greint var frá þessu á heimasíðu Njarðvíkur nú undir kvöld.

Í frétt á heimasíðu Njarðvíkur kemur fram að Haukur Helgi hafi beðið um að fá sig lausan undan samningi en eitt ár var eftir af þeim þriggja ára samningi sem hann skrifaði undir þegar hann gekk til liðs við Njarðvík sumarið 2021.

Haukur hefur leikið tvö undanfarin tímabil með Njarðvík en hann lék einnig með liðinu tímabilið 2015-2016. Hann er margreyndur landsliðsmaður og hefur meðal annars leikið sem atvinnumaður á Spáni, Frakklandi og í Svíþjóð.

Í viðtali sem birtist á heimasíður Njarðvíkur í kvöld kemur fram að Haukur vilji flytja á höfuðborgarsvæðið.

„Ég og konan mín erum bæði af Reykjavíkursvæðinu og allt okkar nánasta fólk og fjölskylda eru þar. Við ákváðum að prufa að búa hér á svæðinu og hefur liðið gríðarlega vel. En á endanum þá viljum við vera nálægt okkar stórfjölskyldu og það á endanum ræður þessari ákvörðun minni,“ sagði Haukur Helgi.

Hann segir ákvörðunina ekki tekna í flýti og hafi verið mjög erfið.

„Þetta er ekki körfuboltaleg ákvörðun heldur ákvörðun sem ég tek fyrir fjölskyldu mína fyrst og fremst.“

Njarðvíkingar féllu úr leik í undanúrslitum Subway-deildarinnar eftir tap gegn Tindastóli. 




Fleiri fréttir

Sjá meira


×