Erlent

Skóla­yfir­völd í Flint banna bak­poka í skólum vegna skot­á­rása

Hólmfríður Gísladóttir skrifar
Í Texas voru nemendur skikkaðir til að koma með glæra bakpoka í skólann í kjölfar skotárásarinnar í Robb Elementary School í maí í fyrra. 21 lést í árásinni.
Í Texas voru nemendur skikkaðir til að koma með glæra bakpoka í skólann í kjölfar skotárásarinnar í Robb Elementary School í maí í fyrra. 21 lést í árásinni. Getty/Brandon Bell

Skólayfirvöld í Flint í Michigan í Bandaríkjunum hafa ákveðið að banna bakpoka í skólum til að koma í veg fyrir að nemendur komi með vopn eða aðra bannaða hluti í skólann. 

Ákvörðunin var tekin í kjölfar þess að loka þurfti Southwestern Classical Academy í tvo daga í kjölfar öryggisógnar og ítrekaðra skotárása í skólum í Bandaríkjunum. Leitað var álits meðal foreldra, sem virðast hafa stutt ákvörðunina.

Nemendum verður heimilt að koma með nestisbox í skólann og bera nett veski til að geyma persónulega hluti. Þeir verða að nota glæra poka undir íþróttafatnað. Starfsmönnum skólans verður heimilt að leita á nemendum.

Þetta er ekki í fyrsta sinn sem skólayfirvöld í Bandaríkjunum grípa til aðgerða af þessu tagi til að freista þess að koma í veg fyrir ofbeldisverk innan veggja skólanna. Í öðru skólahverfi skammt frá Flint voru nemendur til að mynda skikkaðir til að nota glæra bakpoka eftir að nemandi skaut fjóra samnemendur sína.

Í Flint hafa mörg atvik komið upp á þessu ári þar sem nemendur hafa mætt með vopn í skólann. Þá hefur nemendum, kennurum og öðrum starfsmönnum verið hótað.

Washington Post hefur eftir David Riedman, stofnanda K-12 School Shooting Database, að áhyggjur skólayfirvalda í Flint eigi sér stoð í tölfræðinni. Ofbeldi þar sem byssur koma við sögu hafi aukist frá 2018 og endurspegli aukið byssuofbeldi á landsvísu.

Í flestum tilvikum sé um að ræða atvik þar sem deilur magnast þar til einhver dregur upp skotvopn, sem Riedman segir vísbendingu um aukinn vopnaburð ungmenna.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×