Gorsuch var tilnefndur í réttinn árið 2017 af Donald Trump, þáverandi Bandaríkjaforseta, sem arftaka hins íhaldssama Antonin Scalia. Gorsuch er sjálfur afar íhaldssamur og var einn af þeim dómurum sem á síðasta ári sneru við dómnum Roe gegn Wade sem tryggði öllum Bandaríkjamönnum rétt til þungunarrofs.
Fjármál hæstaréttardómara hafa verið mikið til umræðu undanfarið eftir að upp kom að dómarinn Clarence Thomas hefur þegið lúxusferðir frá milljarðamæringum tengdum Repúblíkanaflokknum, stundað vafasöm fasteignaviðskipti og fengið greidd skólagjöld fyrir uppeldisson sinn.
Hefur málið verið talið merki um spillingu og Demókratar í þinginu hafa krafist þess að siðareglur verði settar fyrir hæstaréttardómara.
Allt greitt fyrir Gorsuch og vini hans
Gorsuch þáði boðsferð til Íslands sem greidd var af Antonin Scalia lagadeildinni við George Mason háskóla í Virginíufylki. Deildin er þekkt fyrir að vera ein sú íhaldssamasta í Bandaríkjunum.
Samkvæmt frétt New York Times um málið greiddi deildin 5.250 dollara fyrir gistingu Gorsuch, eða um 717 þúsund krónur, en ferðin var farin dagana 19. til 30. júlí árið 2021. En dagblaðið hefur undir höndum innanbúðar tölvupósta frá háskólanum.

Auk þess að heimsækja Háskóla Íslands var Gorsuch boðið á ýmsa ferðamannastaði hér á landi, svo sem ýmsa fossa og Bláa lónið. Allt var greitt fyrir Gorsuch, svo sem flug, matur og drykkur. Þá var vinum Gorsuch flogið til Íslands á kostnað lagadeildarinnar.
Litil kennsla
Þetta er ekki eina ferðin sem Antonin Scalia lagadeildin hefur greitt fyrir Gorsuch. Árið 2018 var honum boðið í ferð til ítölsku borgarinnar Padua. Greiddi skólinn 3.771 dollara fyrir flugið, eða um 515 þúsund krónur. Ferðaðist Gorsuch einnig til Bologna og Flórens í þeirri ferð.
Yfirskrift ferðanna var að þetta væru kennsluferðir. En samkvæmt New York Times var kennslan mjög lítill hluti af ferðunum.
„Þetta hljómar eins og boðsferð með öllu tilheyrandi en afar lítilli kennslu,“ sagði Amanda Frost, lagasiðfræðingur við Virginíuháskóla.