Erlent

Tugir látnir eftir eld í gull­námu í Perú

Atli Ísleifsson skrifar
Talið er að skammhlaup hafi orðið og í kjölfarið hafi blossað upp mikill eldur í La Esperanza námunni sem er að finna í Arequipa-héraði. Myndin er úr safni og tengist fréttinni ekki beint.
Talið er að skammhlaup hafi orðið og í kjölfarið hafi blossað upp mikill eldur í La Esperanza námunni sem er að finna í Arequipa-héraði. Myndin er úr safni og tengist fréttinni ekki beint. Getty

Að minnsta kosti 27 eru látnir eftir að mikill eldur kom upp í gullnámu í Perú í gær. Um er að ræða mannskæðasta námuslysið í landinu í um tvo áratugi.

BBC greinir frá því að talsmenn perúskra yfirvalda segi að tekist hafi að bjarga tveimur námumönnum úr eldinum, en að ekki sé búist við að fleiri í námunni komist lífs af.

Talið er að skammhlaup hafi orðið og í kjölfarið hafi blossað upp mikill eldur í La Esperanza námunni sem er að finna í Arequipa-héraði.

Perúsk yfirvöld hafa sent tugi sérfræðinga á vettvang til að hægt sé að tryggja námuna, en á myndum má sjá mikinn eld og reyk leggja frá námunni.

Talið er að námumennirnir hafi verið að störfum á um hundrað metra dýpi þegar eldurinn kom upp. Náman, sem er í eigu félagsins Yanaquihua, er mjög afskekkt og tók langan tíma fyrir björgunarlið að koma á vettvang.

Talið er að um hundrað tonn af gulli séu unnin úr námum í Perú á ári hverju, eða um fjögur prósent af allri gullvinnslu í heiminum.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×