Körfubolti

Jokic refsað fyrir að gefa eig­anda mót­herjanna oln­boga­skot í miðjum leik

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Nikola Jokic lenti í útistöðum við eiganda mótherjanna í leiknum. Þarna gekk mikið á við hliðarlínuna.
Nikola Jokic lenti í útistöðum við eiganda mótherjanna í leiknum. Þarna gekk mikið á við hliðarlínuna. AP/Matt York

Nikola Jokic átti stórbrotinn leik í úrslitakeppni NBA deildarinnar í körfubolta en það dugði þó ekki til því Phoenix Suns vann sigur á Denver Nuggets og jafnaði undanúrslitaeinvígi liðanna í Vesturdeildinni í 2-2.

Phoenix Suns vann leikinn 129-124 og hefur þar með unnið tvo leiki í röð og jafnað einvígið.

Devin Booker og Kevin Durant voru báðir í stuði og báðir með 36 stig fyrir Suns liðið auk þess sem hinn sjóðheiti Booker bætti við tólf stoðsendingum.

Þegar Denver reyndi að loka á stórskyttur Suns í fjórða leikhlutanum þá kom Landry Shamet sterkur inn í lokin og skoraði fjóra þrista í lokaleikhlutanum. Shamet endaði óvænt með nítján stig og hitti úr fimm af átta þriggja stiga skotum sínum. Hann var búinn að skora fjórtán stig samanlagt alla úrslitakeppnina fyrir leikinn.

Jokic skoraði alls 53 stig í leiknum auk þess að gefa 11 stoðsendingar en hann hitti úr 20 af 30 skotum sínum. Þessi frammistaða var ekki nóg fyrir Denver liðið.

Það var ekki aðeins frammistaða Jokic sem komst í fréttirnar því það urðu læti á milli hans og eiganda Phoenix Suns í öðrum leikhluta.

Josh Okogie, leikmaður Phoenix Suns, reyndi þá að bjarga boltanum en endaði í fínu sætunum á hliðarlínunni. Jokic er þekktur fyrir að drífa boltann í leik og hann reyndi það þarna. Boltinn var hins vegar í höndunum á Mat Ishbia, eiganda Phoenix Suns.

Þegar Jokic reyndi að taka boltann þá flaug boltinn í burtu og inn í áhorfendahópinn. Jokic gaf þá Ishbia olnbogaskot og eigandinn datt aftur á bak.

Dómarar leiksins ákváðu að gefa Jokic tæknivillu fyrir atvikið en Serbinn sá ekki eftir neinu í leikslok.

„Áhorfandinn setti hendur á mig fyrst. Ég hélt að deildin ætlaði að verja okkur. Kannski hef ég ekki rétt fyrir mér þar. Ég veit hver hann er en er hann ekki stuðningsmaður. Er það ekki?,“ spurði Nikola Jokic eftir leikinn.

„Jokic er að ná í boltann og einhver áhorfandi heldur á boltanum eins og hann vilji vera með í leiknum. Láttu boltann vera maður,“ sagði Michael Malone, þjálfari Jokic hjá Denver Nuggets.

NBA



Fleiri fréttir

Sjá meira


×