Í greinargerð Dags B. Eggertssonar borgarstjóra með tillögunni segir að í kjölfar þess að fólk fór að streyma hingað til lands frá Úkraínu og öðrum ríkjum hafi félags- og vinnumarkaðsráðherra óskað eftir að hafinn yrði undirbúningur við að reisa sérstakar einingabyggðir fyrir umsækjendur um alþjóðlega vernd. Slíkt hafi verið gert í öðrum ríkjum Evrópu. Morgunblaðið fjallaði um málið í morgun.
„Gert er ráð fyrir að hver skjólgarður rúmi allt að 250 umsækjendur um alþjóðlega vernd. Framkvæmdasýslan-Ríkiseignir mun sjá um að óska eftir tilboðum í einingarnar sjálfar. Í bréfi ráðuneytisins segir að um tímabundin úrræði er að ræða í allt að fjögur ár,“ segir í greinargerðinni.
Þá sé ætlunin að hafa í Skjólgörðum félagsrými fyrir fullorðna, félags- og kennslurými fyrir börn, aðstöðu fyrir starfsmenn og fleira. Áhersla verði þá lögð á nálægð við verslun og þjónustu og auðvelt aðgengi að almenningssamgöngum. Lóðirnar sem undir þetta fara megi þá ekki vera innan skilgreinds iðnaðarsvæðis.
Eins og fyrr segir samþykkti Borgarráð tillöguna á síðasta fundi sínum, sem var 27. apríl. Var þar samþykkt að umhverfis- og skipulagsráði, í samráði við velferðarsvið, skóla- og frístundasvið og mannréttindaskrifstofu, yrði falið að taka tillöguna til umfjöllunar og ræða við ráðuneytið.
Í undirbúningnum þurfi að kalla eftir stöðumati stjórnvalda og spár um móttöku flóttafólks, ólík búsetuúrræði og framtíðarsýn um þjónustu.