Skoðun

Kulnun ekki skil­greindur sjúk­dómur

Diljá Mist Einarsdóttir skrifar

Í síðasta ársriti VIRK starfsendurhæfingarsjóðs var gerð ítarleg grein fyrir rannsóknar- og þróunarverkefni sjóðsins tengdu fyrirbærinu kulnun. Í ljós kom að 58% umsækjenda hjá VIRK töldu sig glíma við einkenni kulnunar og í 14,1% tilvísana frá læknum til VIRK var kulnun nefnd sem ein ástæða tilvísunar. Samkvæmt niðurstöðum þróunarverkefnisins, uppfylltu þó aðeins 6,1% beiðnanna skilyrði Alþjóðaheilbrigðisstofnunarinnar (WHO) um kulnun.

Þetta varð tilefni fyrirspurnar minnar til á Alþingi til heilbrigðisráðherra um kulnun og barst svar við henni á dögunum. Það er athyglisvert að í svarinu undirstrikar ráðherrann að kulnun hafi ekki verið skilgreind af WHO sem eiginlegur sjúkdómur, heldur sem ástand tengt vinnuumhverfi. Þar sem ekki er um skilgreindan sjúkdóm að ræða, hafði ráðherrann engar upplýsingar um umfang tilvísana og vottorða þar sem kulnun er tilgreind sem ástæða. Þá gat ráðherrann ekki upplýst um tíðni læknisfræðilegrar greiningar á kulnun og þróun hennar af sömu ástæðu.

Hlutverk VIRK er að efla starfsgetu einstaklinga með heilsubrest sem stefna að aukinni þátttöku á vinnumarkaði. Hjá VIRK á sér ekki stað greining á sjúkdómum eða öðrum röskunum, þar treystir sjóðurinn á heilbrigðiskerfið. Þar sem tilvísun frá lækni er grundvöllur að rétti til þjónustu hjá VIRK er athyglisvert að ekki sé um skilgreindan sjúkdóm að ræða og því engar upplýsingar til um umfangið.

Þótt kulnun sé ekki flokkuð sem eiginlegur sjúkdómur, er ástandið flokkað hjá WHO sem þáttur sem hefur áhrif á líðan fólks. Það getur því verið mikilvægt fyrir starfsemi eins og hjá VIRK að hafa upplýsingar um að skjólstæðingar sjóðsins telja sig glíma við slíkt ástand. Það er þó umhugsunarvert að ástandið sé tilgreint sem ástæða tilvísunar frá heilbrigðisstarfsfólki þegar það hefur ekki læknisfræðileg greiningarskilmerki og heilbrigðisyfirvöld hafa enga yfirsýn eða utanumhald um umfangið þar sem ekki er um skilgreindan sjúkdóm að ræða.

Höfundur er þingmaður Sjálfstæðisflokksins.




Skoðun

Skoðun

Þorpið

Alina Vilhjálmsdóttir skrifar

Sjá meira


×