Körfubolti

„Ég var að vonast til þess að hann myndi borga sektina mína“

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Nikola Jokic var frábær með Denver Nuggets í mikilvægum sigri í úrslitakeppninni í nótt.
Nikola Jokic var frábær með Denver Nuggets í mikilvægum sigri í úrslitakeppninni í nótt. Getty/Matthew Stockman

Nikola Jokic sættist við eiganda Phoenix Suns fyrir leik og fór síðan fyrir sínum mönnum í sigri Denver Nuggets sem komst í 3-2 í úrslitakeppni NBA í nótt alveg eins og Philadelphia 76ers gerði með sigri í Boston.

Jokic hafði fengið tæknivillu í leiknum á undan fyrir að ýta eiganda Phoenix Suns sem vakti mikla fjölmiðlaathygli en fyrir leikinn í nótt þá fór fram lauflétt athöfn þar sem að eigandinn, Mat Ishbia, fékk boltann frá Jokic.

„Ég var að vonast til þess að hann myndi borga sektina mína,“ sagði Nikola Jokic léttur eftir leik en hann slapp við bann en fékk 25 þúsund dala sekt sem er um 3,5 milljónir króna.

Eftir sættirnar tók Jokic sig til við að herja á liðsmenn Suns en serbneski miðherjinn endaði með þrennu í 118-102 sigri. Jokic endaði með 29 stig, 13 fráköst og 12 stoðsendingar en þetta var tíunda þrenna hans í úrslitakeppni og þar með sló hann miðherjamet sitt og Wilt Chamberlain.

Phoenix Suns hafði jafnað einvígi með tveimur sigrum í röð í Phoenix en nú voru liðin aftur komin til Denver.

Michael Porter Jr. skoraði fimm þrista í leiknum og endaði með 19 stig. Bruce Brown kom með 25 stig frá bekknum. Denver tókst líka að hægja á Devin Booker sem skoraði vissulega 28 stig en klikkaði á 11 af 19 skotum sínum. Kevin Durant var með 26 stig.

Philadelphia 76ers vann annan leikinn í röð á móti Boston Celtics og nú í Boston. 76ers er því komið 3-2 yfir í einvíginu og næsti leikur er í Philadelphia.

Joel Embiid skoraði 33 stig í leiknum og sigur 76ers var öruggur. Philadelphia hefur ekki komist í úrslit Austurdeildarinnar frá árinu 2001 en er nú bara einum sigri frá því.

Tyrese Maxey skoraði 30 stig og var með sex þrista en James Harden endaði með 17 stig, 10 stoðsendingar og 8 fráköst. Jayson Tatum var atkvæðamestur hjá Boston með 36 stig en hitti aðeins úr 11 af 27 skotum.

NBA



Fleiri fréttir

Sjá meira


×